Farsímabann í gildi í Grundaskóla

Í dag, mánudaginn 23. september, tekur farsímabann gildi hjá nemendum í Grundaskóla á Akranesi og mun í fyrstu atrennu gilda fram að haustfríi 17. október nk. Í bréfi skólayfirvalda til forráðamanna barna í skólanum kemur fram að nemendur hafi ekki virt reglur sem settar hafa verið um notkun farsíma í skólanum og að meirihluti nemenda hafi lítið mark tekið á þeim. Símanotkun hafi verið komin í óefni og truflað eðlilega starfsemi í skólanum.

Flosi Einarsson aðstoðarskólastjóri skrifar í bréfi til forráðamanna að ástæður fyrir banninu séu meðal annars að samkvæmt rannsóknum valdi símar kvíða og stressi hjá notendum vegna þess að þeir eru sífellt að fá tilkynningar um skilaboð frá samfélagsmiðlum. „Einmitt vegna þessa mikla áreitis dregur verulega úr einbeitingu nemanda við verkefnavinnu sína.“ Þá segir Flosi að oft sé hægt að rekja einelti af ýmsu tagi beint til samfélagsmiðlanna og ljóst að margt af því sem þar á sér stað fer fram á skólatíma barnanna. „Okkur langar til að gera skólann að griðastað þar sem nemendur okkar eru lausir við það áreiti sem fylgir samfélagsmiðlum,“ skrifar Flosi. Í lok bréfsins segir hann: „Eftir haustfrí munum við síðan í sameiningu meta hvernig til hefur tekist. Við viljum einnig benda á að ef brýn nauðsyn krefur, er alltaf hægt að koma skilaboðum til nemenda með því að hafa samband við ritara skólans.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir