Yngsta húsið á Reykhólum og fjær er Læknishúsið, elsta hús staðarins. Ljósm. Reykhólahreppur.

Nýjar íbúðir afhentar á Reykhólum

Síðastliðinn föstudag afhenti Sigurður Garðarsson hjá Hrafnhóli ehf. Reykhólahreppi formlega nýtt raðhús við Hólatröð. Tryggvi Harðarson sveitarstjóri tók við húsinu fyrir hönd sveitarfélagsins. Aðeins fjóra mánuði tók að reisa og ganga frá húsinu en í því eru þrjár íbúðir, tvær 86 fermetrar að stærð og ein 95 fm. Nýir leigjendur tóku svo síðar sama dag við lyklum að íbúðum sínum. Tryggvi Harðarson segir á vef Reykhólahrepps að með þessu nýja raðhúsi fjölgi íbúðum á Reykhólum utan stofnana um 10% en ekkert íbúðarhúsnæði hafi verið byggt á Reykhólum í áratug. Hann segir að stefnt verði að því að selja íbúðirnar inn í sjálfseignarhúsnæðisfélag. ,,Félagsmálaráðherra hefur verið og er að láta vinna úrlausnir fyrir sveitarfélög til að geta byggt ný hús á svæðum við erfiðar markaðsaðstæður. Ég bind miklar vonir við að sú vinna skili sér til hagsbóta fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni,“ sagði Tryggvi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir