Bollywood dansmær ásamt Pauline McCarthy.

Þjóðahátíð haldin á Akranesi á sunnudaginn

Félag nýrra Íslendinga gengst fyrir árlegri þjóðahátíð sunnudaginn 22. september klukkan 14-17. Hátíðin verður að þessu sinni haldin í Íþróttahúsinu við Jaðarsbakka á Akranesi og eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Sem fyrr er það Pauline McCarthy, formaður Félags nýrra Íslendinga, sem skipuleggur hátíðina.

„Það verður fólk frá tuttugu löndum sem kemur og kynnir sín þjóðlönd með mat og skemmtiatriðum. Einnig verður hægt að kaupa mat frá Suður-Kóreu, Filippseyjum, Thailandi og Bandaríkjunum. Flestir af sýnendum eru búsettir hér á Vesturlandi,“ segir Pauline í samtali við Skessuhorn. Sævar Freyr Þráinsson bæjartjóri mun setja hátíðina en auk hans mun kínverski sendiherrann Jin Zhijian ávarpa gesti.

Boðið verður upp á búlgarskan dans, thai dans, spænskan og filippeyskan söng, rapp, bollywood dans og fleira. Sérstakur gestur, Mahendra Patel, kemur frá Englandi og heldur á laugardaginn námskeið í afrískum og indverskum trommuslætti í Tónlistarskóla Akraness. Þá mun hann koma fram ásamt nemendum sínum á Þjóðahátíðinni á sunnudaginn.

„Það verður margt í gangi og ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að koma og njóta með okkur; smakka góðan mat og hlýða á tónlist frá ýmsum heimshornum,“ segir Pauline.

Allar nánari upplýsingar og skránig á námskeiðið er hjá Pauline McCarthy í síma 824-2640 eða societyofnewicelanders@gmail.com

Líkar þetta

Fleiri fréttir