Dagur og nótt í lífi Landans

Dagur í lífi Landans verður fyrsti þáttur haustsins af sjónvarpsþættinum Landanum í Ríkissjónvarpinu. Þátturinn verður sá þrjúhundraðasti í röðinni og verður með allt öðru sniði en venjulegir þættir. Dagskráin hefst eftir fréttir á RUV sunnudaginn 22. september og útsendingu lýkur ekki fyrr en sólarhring síðar, eða eftir fréttir mánudaginn 23. september.

Fimm umsjónarmenn, ásamt tökuliði, verða á ferðinni um allt land í heilan sólarhring, hver í sínum landshluta, flakka á milli, taka viðtöl, segja frá og sýna hvað landsmenn eru að fást við, bæði í starfi og leik. Dagskrárgerðarmenn Landans skoða atvinnulíf, félagslíf, mannlíf og reyna að sýna sem allra mest af því sem drífur á daga landans. „Farið verður inn á vinnustaði, út í búð, inn í eldhús hjá fólki, út í fjós og út um allt! Að auki fá áhorfendur að skyggnast á bak við tjöldin. Þetta verður dagur og nótt í lífi landans og Landans,“ segir í tilkynningu.

Liðum verður litaskipt til nánari aðgreiningar. Fjólubláa liðið skipa þeir Gunnar Birgisson, Kristinn Þeyr Magnusson og Grímur Jón Sigurðsson. Þeir hefja leik á Akureyri og enda ef allt gengur að óskum á Egilsstöðum.

Rauða liðið. Sigríður Halldórsdóttir fyrrverandi Landamær ætlar að taka Vestfirðina með stæl ásamt Jóhannesi Jónssyni og Braga Valgeirssyni.

Bláa liðið byrjar að öllum líkindum í Lundarreykjardal í Borgarfirði og ætlunin er að komast til Vestmannaeyja. Það skipa þau Edda Sif Pálsdóttir, Rúnar Ingi Garðarsson og Sturla Holm Skúlason.

Gula liðið fer spennandi leiðir. Þórgunnur Oddsdóttir og Gunnlaugur Starri Gylfason hafa fengið með sér Baltasar Breka sem þekkir vel til á svæðinu sem þau ætla að fara frá Snæfellsnesi til Akureyrar.

Í græna liðinu eru Gísli Einarsson, Magnús Atli Magnússon og Björn Helgason sem ætla að byrja í Dyrhólaey og enda för sína á Seyðisfirði.

„Útsendingin er byggð á „hægvarps“ hugmyndafræðinni. Í raun verður þetta þó ekki mjög hægt því Landinn fer hratt yfir en gefur sér samt góðan tíma til að spjalla á hverjum stað. Útsendingin hefst á aðalrás RÚV en verður svo á RÚV 2 eftir að hefðbundnum Landatíma lýkur. Yfir nóttina verður sent út á aðalrásinni fram að almennri dagskrá á mánudag. Að auki verður hægt að fylgjast með á RÚV.is allan tímann og á samfélagsmiðlum verður útsendingunni fylgt eftir með ýmsum hætti.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir