Vatn flæðir yfir veg. Ljósm. úr safni/ tfk.

Vegir ófærir vegna vatnavaxta

Vegna rigninga eru vatnavextir víða í dag, ekki síst á Vesturlandi og Vestfjörðum. Svo miklir eru vatnavextirnir sums staðar að flæðir upp á vegi. Meðal annars er Svínadalsvegur í sundur við Súluá og Langavatnsvegur er ófær sökum vatnavaxta. „Búast má við fleiri skemmdum og er fólk beðið að fara með mikilli gát,“ segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

Veðurstofa Íslands hefur hækkað viðvörunarstig vegna rigninga við Faxaflóa og Breiðafjörð upp í appelsínugula viðvörun. Spáir talsverðri eða mikilli rigningu þar til kl. 6:00 í fyrramálið með auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Eykur það hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum, sem og auknu álagi á fráveitukerfi. Fólki er bent á að huga að niðurföllum til að forðast tjón af völdum vatns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir