
Skriða féll á Skarðsstrandarveg
Aurskriða lokar nú veginum undir Melahlíð á Skarðsströnd, utarlega á ströndinni milli Ballarár og Klofnings. Að sögn Trausta Bjarnasonar, bónda á Á, er búið að vera mikið vatnsveður á Skarðsströnd og árnar þar kolmórauðar að lit við alla bakka. Trausti var á ferðinni í dag og kvaðst einnig hafa séð spýju úr hlíðinni fyrir ofan Tjaldanes í Saurbæ.
Svipað er uppi á teningnum víðast hvar á Vesturlandi. Miklir vatnavextir hafa verið vegna rigninga um allan landshlutann í dag. Eins og greint var frá fyrr í dag fór Svínadalsvegur í sundur við Súluá og þá er Langavatnsvegur ófær. Þá rennur vatn yfir Akrafjallsveg norðan Akrafjalls á einum stað, svo dæmi séu tekin.
Fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að búast megi við frekari skemmdum á vegi og fólk er beðið að fara með mikilli gát.
Appelsínugul viðvörun er enn í gildi fyrir Faxaflóa- og Breiðafjarðarsvæðið vegna rigninga og vatnavaxta.