Asparskógar 4 á Akranesi.

Keypti fjórtán íbúða fjölbýli á Akranesi

Fjárfestirinn Matthías Imsland keypti nýlega 14 íbúða fjölbýlishús við Asparskóga 4 á Akranesi af leigufélaginu Heimavöllum hf. í gegnum einkahlutafélag sitt, MPI ehf. Fréttablaðið greindi frá. Kaupverðið liggur ekki fyrir en kaupin voru fjármögnuð með lánum frá Íbúðalánasjóði sem einungis eru ætluð óhagnaðardrifnum leigufélögum, en ákvæði þess efnis er í stofnskrá fyrirtækisins MPI ehf. Lán sem þessi lúta sérstökum kröfum skv. reglugerð, m.a. að fyrirtæki sem fær slík lán er óheimilt að greiða út arð, heldur á allur hagnaður af rekstrinum að fara til uppbyggingar og viðhalds íbúðanna. Enn fremur er kveðið á um að launagreiðslum sé stillt í hóf. Sömuleiðis er tekið fram að slík félög skuli hafa það langtímamarkmið að eiga og sjá um rekstur leiguhúsnæðis. Þá er kveðið á um að meðalárstekjur íbúa skuli ekki fara yfir ákveðna upphæð og að leiguverð skuli reiknað út eftir ákveðnum reglum. Leiguverð skal þannig vera hlutfall af afborgunum lána ÍLS að viðbættum rekstri og viðhaldi.

Tveimur dögum eftir að Matthías fékk afsal íbúðanna fjórtán í hendurnar frá Heimavöllum seldi félag hans tvær íbúðanna fyrir samtals 50,6 milljónir króna. Til þess þurfti að afla sérstaks leyfis frá Íbúðalánasjóði, sem var veitt, en peningarnir fóru m.a. í að greiða upp rúmlega 29 milljóna lán frá sjóðnum sem hvíldu á þessum tveimur íbúðum.

Við kaupin tók félag Matthíasar yfir leigusamninga Heimavalla við leigjendur. Hins vegar bendir ekkert til þess að leiguverð muni lækka, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins, þrátt fyrir að kaup fyrirtækisins séu fjármögnuð með lánum sem eru ætluð óhagnaðardrifnum leigufélögum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir