Nú er að ljúka stórum áfanga í endurnýjun aðveituæðarinnar; 7,8 km kafla frá Kjalardal að miðlunargeymunum við Akranes. Myndin var tekin fyrir þremur vikum. Ljósm. mm.

Eftir er að endurnýja rúman þriðjung asbestlagnarinnar

Þessa dagana er á vegum Veitna verið að ljúka við endurnýjun 7,8 kílómetra stofnæðar hitaveitunnar frá Kjalardal að miðlunartönkum á Akranesi. Nýja lögnin er í 400 mm stálröri, einangruð og með plastkápu yst. Lögnin var tengd síðastliðinn miðvikudag. Það var Þróttur hf. sem var verktaki í þessum hluta endurnýjun aðveituæðarinnar. Að sögn Helga Helgasonar verkefnisstjóra hjá Veitum gekk verkið vel. Næsti áfangi í endurnýjun stofnæðarinnar verður 2,7 km lögn frá Kjalardal að Urriðaá sem liggur í gegnum land Kjalardals og Litlu-Fellsaxlar og að botni Grunnafjarðar. Helgi segir að það verk verði boðið út innan tíðar. Næstu áfangar þar á eftir verða 2,9 km lögn í landi Grjóteyrar, Klausturtungu og Skógarkots í Andakíl sem lögð verður í 450 mm. stálpípu. Samhliða þeim áfanga verður boðið út að leggja nýja 150 mm heimtaug að Hvanneyri, rúmlega kílómeters lögn.

Lögnin frá Deildartungu að Akranesi er alls um 75 kílómetrar og þar af voru 66 kílómetrar lagðir í asbesti. Helgi segir að nú sé búið að skipta út um 62% af upprunalegu asbestlögnunum; eða 41 kílómetra og 25,5 km eru því eftir. Gömlu asbestlagnirnar eru teknar úr jörðu og þær urðaðar í Fíflholtum. Veitur ganga síðan frá, slétta og sá í gömlu lagnastæðin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir