Óvænt brúðkaup Kristínar og Friðjóns á Hallsstöðum í Dölum. Ljósm. úr einkasafni.

Buðu til stórafmælis og giftu sig óvænt

Hjónin Kristín Sveinbjörnsdóttir og Friðjón Guðmundsson á Hallsstöðum í Flekkudal í Dalabyggð eiga bæði stórafmæli á árinu. Kristín verður fimmtug í október og Friðjón varð sextugur í mars. Þá eiga tvö barnananna þeirra einnig stórafmæli á þessu ári, Einar verður tvítugur í lok september og Signý verður þrítug í október.

Fjölskyldan ákvað fyrr í sumar að slá til veislu fyrir fjölskyldu og vini af þessum tilefnum. Kristín og Friðjón ákváðu að auki að nýta þetta tilefni til að koma gestum á óvart með brúðkaupi. „Það vissi þetta engin nema þrjú af börnunum okkar svo við komum öllum á óvart,“ segir Kristín en þau Friðjón hafa verið saman í rúmlega þrjátíu ár. „Okkur þótti gaman að gera þetta svona óvænt og það bjóst enginn við þessu, maður er aldrei of gamall til að leika sér smávegis,“ segir Kristín í samtali við Skessuhorn. „Sumir héldu að eldri sonur okkar væri að fara að gifta sig fyrst við vorum að halda svona veislu en svo fór fólk að spá í hvort það gæti verið að við Friðjón værum kannski ekki gift.“

 

Náði líka að koma Friðjóni á óvart

Þegar gestirnir komu fóru allir fram á Flekkudal að gamalli hlaðinni rétt og hestum var stillt upp fyrir neðan barð þar sem gestirnir söfnuðust saman. „Þetta myndaði svona lifandi altaristöflu, sem var mjög gaman,“ segir Kristín og bætir því við að gestirnir hafi allir orðið mjög hissa. „Þegar ég kom út úr bílnum í upphlut voru allir alveg steinhissa og Friðjón líka. Hann vissi ekkert að ég ætlaði að klæða mig svona upp svo ég náði að koma honum smávegis á óvart líka. Ég fékk upphlut að láni hjá systur minni því mig langaði að klæða mig aðeins meira upp og koma Friðjóni á óvart.“

Eftir að séra Anna Eiríksdóttir hafði gefið þau hjónin saman var slegið til veislu. „Við byrjuðum frammi á dal og svo færðist veislan í samkomuhúsið á Staðarfelli þar sem við héldum matarveislu og öllu tjaldað til.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir