Einn tveir og elda býður Vestlendingum að fá tilbúna matarkassa

Einn, tveir og elda er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að útbúa matarpakka sem eru til sölu á www.einntveir.is og ætlar fyrirtækið að færa út kvíarnar í þessum mánuði og gefa Vestlendingum tækifæri á að njóta þjónustunnar sem hefur til þessa eingöngu verið í boði á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Einn tveir og elda útbýr matarpakka fyrir ýmist tvo, þrjá, eða fjóra og fær viðskiptavinurinn þrjá rétti í sinn matarpakka með öllu hráefni sem til þarf ásamt uppskriftum með ítarlegum leiðbeiningum.
„Við hófum starfsemi í byrjun árs 2018 og gengur bara mjög vel. Frá byrjun höfum við boðið uppá lágkolvetna, klassíska og vegan-pakka en núna fyrir haustið 2019 gáfum við heimasíðunni okkar smá útlitslega yfirhalningu ásamt því að við bættum úrvalið fyrir viðskiptavinina. Við höfum frá byrjun aðgreint okkur frá samkeppnisaðilum með því að gefa viðskiptavininum meira svigrúm til að velja,“ segir Jenný Sif Ólafsdóttir, verkefnastjóri Einn, tveir og elda í samtali við Skessuhorn. „Hingað til hafa viðskiptavinir getað valið þrjár af sex mögulegum uppskriftum og réttum í Klassíska pakkanum, en núna í byrjun september ákváðum við að auka úrvalið enn frekar og bjóða upp á tólf valmöguleika. Þannig gefum við viðskiptavinum okkar meira vald til að setja saman sinn matarpakka eftir eigin smekk eða eftir smekk fjölskyldunnar og valið úr fleiri klassískum, lágkolvetna og vegan réttum hverju sinni,“ bætir hún við.

Opið fyrir pantanir af landsbyggðinni
Til viðbótar við þessa breytingu hefur fyrirtækið opnað fyrir pantanir af landsbyggðinni, þar á meðal Vesturlandi, og geta viðskiptavinir nú pantað hvaðan sem er af landinu þar sem Samskip er með afhendingarstöð. „Við höfum fengið ótal fyrirspurnir frá því að við opnuðum hvort við ætlum ekki að dreifa út á land líka. Við höfum verið að velta þessu fyrir okkur og sáum ekkert annað í stöðunni en að byrja á því af fullum krafti,“ útskýrir verkefnastjórinn. Fyrirtækið hefur frá byrjun boðið upp á heimkeyrslu á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjunum, en Einn, tveir og elda ætlar núna að bjóða upp á heimsendingu á Akranesi. „Við sjáum mikla möguleika í dreifingu á Akranesi og höfum ekki trú á öðru en að Skagamenn taki vel í þetta hjá okkur. Við erum því spennt að kynna Skagamönnum fyrir starfsemi okkar,“ segir Jenný Sif vongóð að lokum.

Sjá nánar heimasíðu Einn, tveir og elda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir