Umbra með tónleika í Vinaminni

Fimmtudaginn 19. september klukkan 20, mun tónlistarhópurinn Umbra heimsækja Akranes. Umbra mun flytja blandaða efnisskrá af trúarlegri og veraldlegri miðaldatónlist frá Evrópu í bland við íslensk þjóðlög. Tónlistarhópurinn Umbra var stofnaður árið 2014 og er skipaður þeim Alexöndru Kjeld sem spilar á kontrabassa, Arngerði Maríu Árnadóttur sem leikur á orgel og keltneska hörpu, Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur fiðluleikara og Lilju Dögg Gunnarsdóttur sem spilar á flautu og sér um slagverkið. Hún er einnig aðalsöngkona Umbru en þess má geta að allar eru þær góðar söngkonur og fá áheyrendur að njóta þess.

Umbra hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2018 fyrir plötuna Sólhvörf en hún var valin þjóðlagaplata ársins. Þar tekur sveitin Umbra hlustandann í heillandi ferðalag þar sem tónlist tengd dimmum vetrardögum er í forgrunni. Virkilega vönduð plata þar sem lögin eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi útsett og flutt.

Tónlistarkonunrar hafa allar brennandi áhuga á fornri tónlist jafnt þeirri nýju. Ólíkar víddir þessarar tónlistar eru kannaðar í eigin útsetningum hópsins og í spuna, og hefur hópurinn skapað sinn eigin hljóðheim sem hefur fornan blæ.

Aðgangseyrir er kr. 2.500 en Kalmansvinir greiða kr. 2.000. Miðasala er við innganginn.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir