Scania árgerð 1977, körfubíll Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar, hefur staðið án númera frá í vor. Ljósm. Skessuhorn/mm

Slökkviliðið án körfubíls frá því í vor

Hinn 42 ára gamli Scania körfubíll Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðasveitar hefur staðið ónothæfur frá því í vor þegar úttekt Vinnueftirlitsins leiddi í ljós að búnaði í honum er ábótavant. Nú er búið að leggja númer bílsins inn til geymslu. Körfubílar eru dýr tæki en nýr bíll er talinn kosta um 80 milljónir króna. Það er nú til skoðunar hjá sveitarfélögunum sem standa að slökkviliðinu hvernig fjármagna megi kaup á öðrum bíl. Þar til lausn fæst þarf að treysta á aðstoð frá slökkviliðum á höfuðborgarsvæðinu eða í Borgarnesi. Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri segir að ef til bruna kæmi í háreistum húsum verði að auki að treysta á aðstoð verktaka sem eiga skotbómulyftara, krana og annan tækjakost sem nýst gæti við slíkar aðstæður. „Strangt til tekið hefur slökkviliðið ekki nú búnað til að ná upp á fimmtu hæðir húsa og allt þar fyrir ofan,“ segir hann.

Að sögn Þráins lítur hann það alvarlegum augum að enginn nothæfur körfubíll sé nú í flota liðsins. Á svæðinu eru fjölmörg háreist fjölbýlishús og stærri iðnaðarhús sem krefjast þess að búið sé yfir réttum búnaði ef eldur kemur upp. „Það segir sig sjálft á starfssvæði með á níunda þúsund íbúa og stóriðjufyrirtæki á Grundartanga, þá verður slökkviliðið að vera vel tækjum búið. Ég treysti hins vegar á að sveitarfélögin líti málið sömu augum og við og tryggi fjármögnun á nýjum körfubíl hið allra fyrsta. Sveitarstjórnarfólk sýnir málinu skilning og ég er því vongóður að úr rætist innan tíðar,“ segir Þráinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir