Á Þverhlíðingaafrétti fyrr í dag. Ljósm. Einar Guðmann.

Slæmt veður í leitum

Bændur um vestanvert landið hafa fengið venju fremur slæmt veður til smalamennsku síðustu daga; úrkomusamt, hvasst og kalt. Gránað hefur til fjalla síðustu daga og víða jafnvel orðið sporrækt. Í gær stóðu smalamennskur sem hæst t.d. á Arnarvatnsheiði, Tvídægru og Holtavörðuheiði og er að heyra á mönnum að aðstæður hafi verið með versta móti. Fé af Arnarvatnsheiði var rekið til Fljótstunguréttar í gærkvöldi og var safnið komið nokkuð seinna en vant er niður í rétt. Smölum var mörgum orðið kalt. Einn lét þess getið að veðrið hefði verið með þeim hætti að tappi var ekki einu sinni  dreginn úr fleyg þegar nálgast var réttina. Það hefði aldrei gerst áður. Féð af Holtavörðuheiði og Tvídægru nálgast nú afréttargirðinguna en reksturinn verður ekki kominn í Þverárrétt fyrr en seint í dag.

Seinni partinn og í kvöld er spáð að dragi úr hvassri vestanáttinni og stytti smám saman upp. Á morgun verður að mestu þurrt en kalt í veðri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir