Sveinn Arnar Davíðsson og Arnþór Pálsson, veitingamenn í Skúrnum í Stykkishólmi. Hér eru þeir við framkvæmdir fyrir opnun Skúrsins Pizza Joint síðasta haust.

Skúrinn flytur í húsnæði Bensó

Veitingamennirnir Sveinn Arnar Davíðsson og Arnþór Pálsson, sem eiga og reka Skúrinn og Skúrinn Pizza Joint í Stykkishólmi, ætla að flytja starfsemina í húsnæði Bensó. Þar verður opnaður veitingastaður með sjoppu að flutningum loknum. „Þarna verðum við með fjölbreyttan mat; hamborgara, vefjur, kjúklingavængi og pizzur. Síðan verðum við með sjoppu með nammibar, seljum ís, tóbak, lottó, olíuvörur og svoleiðis,“ segir Sveinn Arnar í samtali við Skessuhorn.

Með flutningunum í nýtt húsnæði verður öll starfsemi Skúrsins komin undir eitt þak, en Skúrinn hefur til þessa verið rekinn á tveimur stöðum. Annars vegar veitingahúsið Skúrinn á Þvervegi 2 og hins vegar Skúrinn Pizza Joint á Borgarbraut 1. „Það verður algjör snilld og á eftir að létta mikið að vera með allt á einum stað,“ segir Sveinn Arnar.

Aðspurður kveðst hann ekki geta sagt nákvæmlega til um hvenær Skúrinn verður opnaður á nýjum stað. Það verði þó núna í haust. „Við erum að fara að loka báðum stöðunum okkar og færa alla starfsemi yfir á Bensó. Þar þurfum við að stækka eldhúsið og gera húsnæðið aðeins að okkar, þannig að það eru framkvæmdir framundan. Við erum byrjaðir að rífa pizzastaðinn en Skúrinn ætlum við að hafa opinn eins lengi og við mögulega getum,“ segir Sveinn Arnar. „Við erum ekki búnir að fá húsið afhent en það verður örugglega bara núna mjög fljótlega. Við reynum að láta framkvæmdir ganga eins hratt fyrir sig og mögulegt er og ætlum að opna eins fljótt og við getum á nýjum stað. Við munum svolítið spila þetta eftir því hvernig framkvæmdirnar ganga. Ef við sjáum til dæmis möguleika á því að opna bara sjoppuna þá gerum við það og opnum síðan matsöluna seinna. En þetta verður alltaf núna í haust,“ segir Sveinn Arnar Davíðsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir