Ný heimasíða Borgarbyggðar í loftið

Á sveitarstjórnarfundi í gær var nýr vefur Borgarbyggðar opnaður. Þjónustuaðili við gerð og hönnun heimasíðunnar er Stefna ehf. Vefurinn er unninn með hliðsjón af ábendingum íbúa, kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins. „Við gerð nýju síðunnar var unnið út frá því að stytta leiðir að upplýsingum og gera síðuna aðgengilegri fyrir notendur ásamt því að bæta útlit hennar. Mikil vinna hefur átt sér stað við að yfirfara efnisinnihald síðunnar og gera upplýsingarnar aðgengilegri. Hægt er að þýða upplýsingar á síðunni með aðstoð þýðingarþjónustu Google (google translate),“ segir í tilkynningu inni á nýja vefnum.

Á síðunni má meðal annars rekja mál með því að leita eftir t.d. málsnúmeri. Þá þarf að nota leitargluggann / stækkunarglerið sem er efst hægra megin á síðunni. Íbúar geta nú óskað eftir viðtali við starfsfólk Borgarbyggðar í gegnum vefinn með því að smella á „Panta viðtal“. Upplýsingar um skipulags- og byggingamál eru orðnar mun aðgengilegri en á fyrri vef og fara flestar umsóknir nú fram á rafrænan hátt í gegnum Þjónustugátt Borgarbyggðar. „Vinna við þróun síðunnar mun halda áfram á komandi vikum og mánuðum. Ef íbúar vilja koma ábendingum á framfæri um eitthvað sem má betur fara, er tekið við þeim í gegnum hnappinn „Senda ábendingu“ sem er að finna bæði efst og neðst á síðunni.“

Sjá nýju síðuna hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir