Virkjun númer tvö á Húsafelli byggði Kristleifur Þorsteinsson bóndi árið 1978. Hún framleiðir 150 kW og gengur eins og klukka. Ljósm. Skessuhorn/mm

Ferðamenn sýna sjálfbærri raforkuframleiðslu mikinn áhuga

Í lok síðustu viku buðu hjónin Bergþór Kristleifsson og Hrefna Sigmarsdóttir, eigendur og ábúendur á Húsafelli í Borgarfirði, hópi fólks í heimsókn. Gestahópurinn var valinn út frá tilefninu sem var að kynna fyrir þingmönnum og öðrum raforkuframleiðslu á Húsafelli sem nú á sér ríflega áttatíu ára sögu, sögu sem teygir sig til fjögurra kynslóða bænda á Húsafelli. Gestahópinn skipuðu einnig ýmsir sem standa í fararbroddi fyrir að beisla orkuna með byggingu smávirkjana á öðrum stöðum á landinu.

Farið var í bílferð um Húsafell og byrjað að skoða virkjunina sem Þorsteinn Þorsteinsson bóndi á Húsafelli byggði árið 1948. „Þessi virkjun framleiddi 14 kW og dugði fyrir bæinn hér á sínum tíma og reyndar meira til. Þessi virkjun er enn í vinnslu, minnisvarði um fyrstu af fjórum kynslóðum virkjana sem hér eru byggðar af jafn mörgum kynslóðum ábúenda á Húsafelli,“ segir Bergþór Kristleifsson bóndi sem jafnframt var bílstjóri í ökuferðinni um Húsafell. „Aðra kynslóð virkjana byggði síðan faðir minn Kristleifur árið 1978 og var hún þá stærsta smávirkjun í sveit á Íslandi. Líkt og sú sem afi byggði er hún enn í fullri notkun og framleiðir þetta um 150 kW af orku. Þriðja virkjunin á Húsafelli var byggð árið 2003 og framleiðir 450 kW. Allar eru þessar virkjanir, hver af annarri rennslisvirkjanir í Stuttá og Kiðá, virkjuð er uppsprettu sem kemur undan hrauninu en hún skilar öruggu fjögurra gráðu heitu vatni, allt árið um kring.“ Nýjasta virkjunin á Húsafelli er svo Urðarfellsvirkjun sem tekin var í notkun á síðasta ári. Ólíkt hinum þremur virkjununum er hún fallvatnsvirkjun. Uppspretta og lækur uppi á fjalli sunnan við Húsafell er veitt í lítið uppistöðulón en þaðan fara um 480 lítrar á sekúndu í niðurgröfnum pípum hlíðina í 270 metra falli. Vatnið kemur úr pípunni í stöðvarhúsið í Reyðarfellsskógi þar sem túrbína og tæknibúnaður breytir orkunni í rafmagn. Virkjunin framleiðir 1125 kW og er orkan seld í gegnum dreifikerfið til HS orku sem endurselur það til notenda. Alls er því raforkuframleiðsla þessara fjögurra virkjana á Húsafelli um 1700 kW. Fram kom í kynningu á verkefninu að orkan sem seld er inn á dreifikerfið auki til muna raforkuöryggi í héraðinu en auk þess gerir virkjunin það auðveldara að leggja þriggja fasa rafmagn í nágrenninu.

Ítarlega er fjallað um kynninguna og fund með þingmönnum og smávirkjanafólki í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir