Árný Sveinbjörnsdóttir jarðfræðingur frá Jarðsvísindastofnun HÍ og Jan Heinemeir eðlisfræðingur frá Árósarháskóla skoða hér hauskúpu rostungs sem fannst í Garðafjöru á Snæfellsnesi í ágústlok 2015. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Elsta dæmi um útdauða tegundar af völdum ofveiði

Í síðustu viku birtist vísindagrein í ritinu Molecular Biology and Evolution, þar sem færðar eru sönnur á að á Íslandi var sérstakur stofn rostunga sem dó út skömmu eftir landnám. Niðurstaðan er fengin með DNA-rannsókn á hvatberum úr tönnum, beinum og hauskúpum 34 rostunga, sem fundist hafa á Íslandi, 800 til 9000 ára gömlum. Þeir mynduðu sérstakan erfðafræðilegan stofn íslenskra rostunga. Eitt þekktasta og stærsta rostungavé hér við land var líklega á fjörunni við Ytri Garða í Staðarsveit. Þar fannst m.a. árið 2015 heilleg hauskúpa rostungs sem þótti afar merkilegur fundur á sínum tíma. Rannsóknir vísindamanna hafa meðal annars leitt í ljós að nokkrir vel tenntir rostungshausar og stakar rostungstennur sem fundust við Barðastaði í Staðarsveit árið 2008 hafi leitt í ljós að þau bein eru 2100 til 2200 ára gömul, það er frá því einni til tveimur öldum fyrir fæðingu Krists.

„Ekki er að efa að þessi niðurstaða kyndir undir tilgátu manna um að upphaflega hafi landnám Íslands tengst rostungaveiðum, að landið hafi verið einhvers konar útstöð eða verstöð til veiðanna jafnvel í langan tíma, áður en menn settust hér endanlega að. Staðfest er að íslenski rostungurinn hafi verið hér við land frá því um 7000 fyrir Krist og fram til um 1200, þegar landið var fullsetið. Útdauði íslenska stofnsins gæti þannig verið elsta dæmið um útdauða af völdum ofveiði, en tennur, húðir og lýsi rostunga voru verðmæt verslunarvara á Víkingaöld,“ segir í tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun.

Fjórir íslenskir vísindamenn eru meðal höfunda greinarinnar: Snæbjörn Pálsson erfðafræðingur, Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur, Ævar Petersen dýrafræðingur og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Aðrir höfundar eru danskir og hollenskir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir