Vekja athygli á stóðhestagirðingu innan þynningarsvæðis stóriðju

„Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur ítrekað vakið athygli sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á hagabeit bæði kynbótahrossa og útigangshrossa á þynningarsvæði fyrir flúor og brennistein við Grundartanga (í svokölluðu Fellsaxlarlandi). Í sumar hafa verið þar allmargar kynbótahryssur með folöld, en þau eru sérlega viðkvæm fyrir áhrifum skaðlegum efna í fóðri. Sama er að segja um fóstrin sem hryssurnar bera,“ segir í tilkynningu sem Umhverfisvaktin birtir í Skessuhorni í vikunnar. „Umrætt land við Grundartanga er í eigu Hvalfjaraðarsveitar, sem hefur skipulagsvald yfir svæðinu og hefur tekið þátt í að skilgreina það sem þynningarsvæði. Um árabil hefur Hrossaræktarsamband Vesturlands haft afnot af svæðinu ásamt fleirum. Þar hafa verið stóðhestar, hryssur og folöld að sumarlagi. Einnig hafa einstaklingar fengið að nota landið til útigöngu fyrir hross á vetrum.“

Þá segir í bréfi Umhverfisvaktarinnar að þynningarsvæði sé landssvæði sem afmarkað er við mengandi iðjuver, eftir útreikningum á álagi skaðlegra efna frá starfsemi iðjuveranna. Landnýting í formi heyskapar eða beitar búfjár er ekki heimil á slíkum svæðum vegna þess að þar fer mengun yfir mörk sem talin eru skaðleg heilsu dýra og manna. Búseta er heldur ekki heimil þar.

Meðfylgjandi mynd sýnir hóp af kynbótahrossum sem verið hafa á þynningarsvæðinu við Grundartanga í sumar.

„Sveitarfélagið hefur á engan hátt brugðist við ítrekuðum ábendingum Umhverfisvaktarinnar. Með því að hundsa málið er sveitarstjórn að afrækja skyldur sínar gagnvart hrossunum og eigendum þeirra sem hugsanlega hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi við Grundartanga,“ segir í tilkynningu Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira