Utanríkisráðherrar funda í Borgarnesi

Fundir utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hófust í gær á Hótel Hamri í Borgarnesi og verða fram að hádegi í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra valdi sína gömlu heimabyggð til að halda fundina, þar sem hópurinn getur dvalið í ró og spekt mitt í einstöku umhverfi Hamars. Á fundum ráðherranna eru til umræðu öryggis- og varnarmál, þ.m.t. netöryggi, norðurslóðir, málefni hafsins og loftslagsbreytingar. Sérstök umræða um mikilvægi alþjóðalaga og alþjóðastofnana er einnig á dagskrá þar sem rætt verður um hvernig megi styrkja stöðu réttarríkisins, lýðræðis og mannréttinda sem víða eiga undir högg að sækja. Þá eru Evrópumálin og Brexit einnig á dagskrá, en Finnland gegnir nú formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins.

Ísland gegnir nú formennsku í utanríkismálasamráði NB8-ríkjanna þar sem lögð hefur verið áhersla á öryggismál, mannréttindi og málefni hafsins, en það síðarnefnda er áherslumál í formennsku Íslands í Norðurlandasamstarfinu og Norðurskautsráðinu. Utanríkisráðherrar allra ríkjanna hafa boðað komu sína á fundinn. Þar af eru nýir utanríkisráðherrar frá Danmörku, Eistlandi og Finnlandi, auk þess sem von er á Ann Linde, nýjum utanríkisráðherra Svíþjóðar. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna (N5) munu einnig hittast í sínum hópi þar sem meðal annars verður rætt um möguleika á auknu samstarfi Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum. Guðlaugur Þór mun jafnframt eiga tvíhliða fundi með kollegum sínum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir