Unnið við háspennulínur. Ljósm. úr safni.

Hyggjast efla flutningskerfi raforku vegna fyrirhugaðra vindorkuvera

Eins og fram hefur komið í Skessuhorni eru þrjú fyrirtæki að undirbúa jafn mörg vindorkuver í Dölum og Garpsdal. Ef áætlanir ganga eftir munu þau rísa á Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Laxárdal en það þriðja í Garpsdal við Gilsfjörð. Ef allar þessar þrjár virkjanir verða að veruleika mun heildar raforkuframleiðsla þeirra verða allt að 410 megawött, eða uppundir jafn mikil orka og samanlögð raforkuframleiðsla Búrfellsvirkjunar og Blönduvirkjunar. Til samanburðar má geta þess að stærsta virkjunin hér á landi er Kárahnúkavirkjun sem framleiðir 690 MW. En til að hægt sé að reisa þessi vindorkuver þarf að vera hægt að flytja orkuna sem þar verður til, en núverandi flutningskerfi mun að óbreyttu ekki ráða við að hana. Morgunblaðið greinir frá því í dag að Landsnet hafi nú ákveðið að flýta undirbúningi fyrir lagningu nýrrar háspennulínu frá Hvalfirði og í Hrútafjörð, alls tæplega hundrað kílómetra lína.

Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, segir í samtali við Morgunblaðið að nauðsynlegt hafi verið að uppfæra kerfisáætlun fyrirtækisins með vindorkugarðana í huga og til að styrkja núverandi byggðalínu. Í ljósi þess hversu sveiflukennd raforkuframleiðsla vindorkuvera jafnan er telja menn brýnt að tengja framleiðslu vindorkuveranna við helsta virkjanasvæði vatnsaflsvirkjana á suðvesturhorni landsins. Sömuleiðis verður ný lína áfangi í að tengja Blönduvirkjun betur við landskerfið.

Sjá nánar frétt Morgunblaðsins frá í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir