Svipmynd úr Bensó skömmu eftir að rekstur hófst síðasta vor. Ljósm. úr safni.

Bensó – einu sjoppunni í Stykkishólmi – hefur verið lokað

Heimamenn og gestir í Stykkishólmi hafa síðustu tvo daga komið að læstum dyrum þegar þeir hafa ætlað í Bensó, einu sjoppuna í bæjarfélaginu. Af þeim sökum er nú styst að aka til Grundarfjarðar vanti fólki að kaupa lottó, tóbak, ís í brauðformi eða nauðsynjar. Verslun Olís í Stykkishólmi var eins og kunnugt er lokað í mars á þessu ári og reksturinn seldur. Var það gert að kröfu Samkeppniseftirlitsins í kjölfar þess að Olís og Hagar runnu saman.

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson forsvarsmaður Bensó staðfestir í samtali við Skessuhorn að hann sé búinn að loka og hættur rekstri í Stykkishólmi. Hann upplýsir jafnframt að viðræður séu í gangi við heimamenn um að taka við rekstrinum. „Það er verið að semja við öfluga heimamenn sem taka við rekstrinum og munu að líkindum opna um næstu mánaðamót,“ sagði Sigurður Pálmi en vildi ekki gefa upp hverjir hinir öflugu heimamenn væru. Sigurður Pálmi rekur tvær verslanir í Reykjavík og segir aðspurður að rekstur Bensó hafi verið strembinn og alltof ólíkur þeim verslunarrekstri sem hann sé með í Reykjavík. „Það þarf heimamenn til að reka svona stað eins og Bensó. Það er útilokað að ætla sér að reyna að fjarstýra slíku héðan úr Reykjavík. Hólmarar þurfa hins vegar engu að kvíða. Það verður opnað um næstu mánaðamót og líklega miklu betri og fjölbreyttari sjoppa og veitingastaður en var fyrir,“ segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson. Þangað til um mánaðamótin verður því sjoppulaust í Hólminum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir