Slátrun í Sláturhúsi Vesturlands. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Slátrun er hafin í Sláturhúsi Vesturlands í Brákarey

Dilkaslátrun hófst í smáum stíl um mánaðamótin í Sláturhúsi Vesturlands í Brákarey í Borgarnesi. Nú er beðið eftir að fé heimtist af fjalli og mun aukinn þungi færast í dilkaslátrun á næstu dögum. Sem fyrr er það rekstrarfélagið Sláturhús Vesturlands ehf. sem tekur húsið á leigu en Guðjón Kristjánsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Þá hefur Anna Dröfn Sigurjónsdóttir verið ráðin til að sinna gæða- og markaðsmálum og yfirslátrari verður sem fyrr Jón Eyjólfsson á Kópareykjum.

Eiríkur Blöndal er formaður stjórnar félagsins. Hann segir í samtali við Skessuhorn að áfram verði lögð áhersla á að reka húsið sem þjónustusláturhús fyrir bændur sem vinna sjálfir að fullvinnslu og sölu afurða sinna. „Við leggjum mikla áherslu á þennan þjónustuþátt, til dæmis að geta látið kjötið hanga eins og þarf og munum að auki bjóða upp á aukna kjötvinnslu í húsinu og aðlaga hana að þeim óskum sem bændur hafa þar um. Almennt er stefna okkar sú að aðstoða bændur við að ná fram þeim styrkleikum í vörunni sem þeir sækjast eftir til dæmis við sölu á kjöti beint frá býli,“ segir Eiríkur. Dilkum verður slátrað nú í haust en eftir það segir Eiríkur að stefnt sé að stórgripa- og hrossaslátrun reglulega allt árið.

Guðjón Kristjánsson framkvæmdastjóri segir að nú sé ágætur meðbyr með starfseminni. „Það er vaxandi áhugi á því að vera með afurðir úr héraðinu og margir bændur eru með fastan viðskiptamannahóp og gera út á ýmsa sérstöðu. Það er ágætt að þurfa ekki að flytja matinn of langt og þetta er gott fyrir menninguna og matarupplifunina, sem og umhverfið líka. Margir veitingastaðir og ekki síður mötuneyti fyrirtækja vilja vera með staðbundið hráefni af þekktum uppruna. Þar komum við sterk inn,“ segir Guðjón Kristjánsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir