Eyjólfur Kristinn, Baldur og Magnús reka seinni reksturinn í almenninginn.

Myndasyrpa úr Oddsstaðarétt

Tími gangna og rétta er nú hafinn, en fyrstu réttir voru um liðna helgi á nokkrum stöðum á Vesturlandi. Í morgun var réttað í Oddsstaðarétt í Lundarreykjadal í Borgarfirði og brá ljósmyndari Skessuhorns sér á svæðið. Sjálf réttin er með þeim glæsilegri hér á landi, endurbyggð úr forsteyptum einingum af Borgarbyggð og Fjallskilanefnd Oddsstaðaréttar og vígð 2013. Réttarhald hófst klukkan 9 í morgun en byrjað var á að fólk kom saman og tók lagið að gömlum sið. Síðan var einatt sungið þegar bætt var í almenninginn, sem að vísu þurfti einungis að gera einu sinni. Féð var að sögn staðkunnugra með fæsta móti í réttinni. Bæði er fé að fækka á bæjunum en einnig var ástæðan sú að afréttarhlið hafði opnast fyrir nokkrum dögum og var þá réttað um 500 fjár í stað þess að reyna að koma fénu aftur á fjall. Unnsteinn Snorri Snorrason réttarstjóri áætlaði að um tvö þúsund fjár hafi verið í réttinni að þessu sinni.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í morgun.

Sveinn á Vatnshömrum, Dúddi í Holti og Snorri á Fossum skála í morgunsárið.

Rekið úr girðingunni áleiðis í réttina. Bæjarhúsin á Oddsstöðum í bakgrunni.

Í upphafi réttarhalds er hefð fyrir því að staldrað sé við og sungið. Forsöngvarar voru feðgarnir á Syðstu-Fossum.

Lunddælir hlíða á söng.

Óli á Hóli, Torfi á Gilstreymi, Elísabet og Gunnar Örn á Hvanneyri.

Óskiladilkurinn var tómur!

Börn úr Grunnskólanum á Hvanneyri komu í rútu og tóku virkan þátt í störfum dagsins.

Langfeðgar leita Vatnshamrafjár.

Guðmundur Sigurðsson og Sigurður Halldórsson.

Sigurður á Hellnum með hluta afkomenda sinna.

Samhentir og Dísa ýtir á eftir.

„Ætlarðu að láta tóbak og brennivín sjást á mynd í Skessuhorni,“ heyrðist í Gunnari Erni sem þarna skensar Arnþór frá Hvítárvöllum sem er að fá sér í vörina.

Augnablik horfðust þau í augu; asíska ferðakonan og Þórhallur, bæði að mynda.

Kvenfélagið sá um réttarkaffið að vanda. Hér eru börn úr grunnskólanum á Hvanneyri að njóta veitinganna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir