Minniháttar meiðsli

Bílvelta varð á Vesturlandsvegi við Brekku í Borgarbyggð aðfaranótt miðvikudags síðustu viku. Þrír voru í bílnum. Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaður bílsins slapp með skrámur en farþegarnir eru ómeiddir. Fjarlægja þurfti bifreiðina með krana.

Aftanákeyrsla varð við Brennistaði í Borgarfirði um kl. 15:00 sl. laugardag. Sjúkrabíll var sendur á vettvang og flutti ökumann annars bílsins á heilsugæsluna í Borgarnesi með minniháttar ávera. Báðir bílarnir eru óökuhæfir og voru fluttir af vettvangi.

Um kl. 15:00 á mánudag var fólksbifreið ekið aftan á vörubifreið á Vestfjarðavegi við Ás í Dölum. Engin slys urðu á fólki en fólksbifreiðin er mikið skemmd og þurfti að flytja hana á brott með dráttarbifreið. Sama dag varð slys á Snæfellsnesvegi við Langá. Ökumaður stoppaði bifreið sína út í kanti hægra megin og ætlaði að taka u-beygju á veginum. Þá ætlaði annar bíll fram úr og lenti á fyrri bílnum. Báðir bílarnir skemmdust mikið en ökumenn, sem voru einir í bílunum, sluppu með minniháttar meiðsla. -kgk

Líkar þetta

Fleiri fréttir