Ofhitnun í hænsnaskít á kjúklingabúi

Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var í kvöld kallað út að kjúklingabúinu á Hurðarbaki í Svínadal. Þar rauk úr safnhaug af skít sem geymdur er í gamalli hlöðu á bænum, fjarri sjálfum uppeldishúsunum. Kjúklingar eða fólk voru því ekki í hættu. Reykköfunarmenn fóru inn í húsið og sprautuðu froðu yfir hauginn og kæfðu þannig eldinn. Að sögn Þráins Ólafssonar slökkviliðsstjóra gerir hann ráð fyrir að starfsmenn kjúklingabúsins moki út úr húsinu þannig að þetta endurtaki sig ekki. Fyrir hálfum mánuði var sambærilegt útkall, en síðan hefur bæst við þann skít sem geymdur er í húsinu. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar búið var að kæfa eldinn. Slökkviliðið verður áfram með vakt við húsið fram eftir kvöldi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir