Nýburi á fæðingadeild HVE á Akranesi. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Lengja fæðingarorlof í áföngum upp í tólf mánuði

Til stendur að lengja fæðingarorlof foreldra og hyggst Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nú á haustþingi. Þar verður lagt til að lengdur verði sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021. Þannig mun samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar, lengjast um einn mánuð eða úr níu í tíu mánuði. Síðan mun samanlagður réttur foreldra barna lengjast um tvo mánuði til viðbótar og fer þá úr tíu mánuðum í tólf mánuði. Heildarkostnaður við lengingu fæðingarorlofs er áætlaður um fjórir milljarðar króna á ársgrundvelli þegar áhrifin verða að fullu komin fram.

Mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði voru lækkaðar verulega í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og fóru lægst niður í 300 þúsund krónur. Frá árinu 2013 hafa hámarksgreiðslur úr sjóðnum farið hækkandi en í síðustu tveimur fjárlögum hafa verið stigin skref og eru hámarksgreiðslur nú 600 þúsund krónur á mánuði. Heildarkostnaður vegna hærri hámarksgreiðslna síðustu tveggja ára nemur um sex milljörðum á ársgrundvelli þegar áhrifin verða að fullu komin fram.

Foreldrum sem þiggja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, og nýta þar með rétt sinn til fæðingarorlofs, hefur fjölgað samhliða hækkunum á hámarksgreiðslum úr sjóðnum. Þannig nýttu 95% foreldra, sem áttu rétt til fæðingarorlofs árið 2018, rétt sinn samanborið við 91% foreldra árið 2015. Útlit er fyrir að þeim foreldrum, sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs, fjölgi enn frekar í ár en útgjöld Fæðingarorlofssjóðs hækkuðu um 22% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs borið saman við sama tímabil í fyrra. „Að hluta má rekja þá hækkun til þess að fleiri foreldrar nýta rétt sinn til fæðingarorlofs en auk þess eiga fleiri foreldrar rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en áður og færri foreldrar fá greidda fæðingarstyrki sem greiddir eru beint úr ríkissjóði. Þá hefur hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði bein áhrif á útgjöld sjóðsins auk þess sem fleiri foreldrar fá greiddar hámarksgreiðslur úr sjóðnum vegna almennt hærri launa,“ segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir