Einar E Gíslason bóndi á góðri stund á heimaslóðum. Ljósm. Eiðfaxi.

Einar á Skörðugili fallinn frá

Einar Eylert Gíslason fyrrverandi bóndi, ráðunautur og bústjóri, er látinn 86 ára að aldri. Einar var fæddur 5. apríl 1933 á Akranesi. Foreldrar hans voru Gísli Eylert Eðvaldsson hárskerameistari og Hulda Einarsdóttir kaupkona. Einar lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri, var síðan í verklegu búfræðinámi í Danmörku og Svíþjóð en útskrifaðist sem búfræðikandídat frá Hvanneyri 1955. Einar var ráðunautur í nautgriparækt fyrir Nautgriparæktarsamband Borgarfjarðar 1955-58, bóndi á Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi 1958-60, bústjóri og tilraunastjóri fjárræktarbúsins á Hesti í Borgarfirði 1960-74 en fluttist eftir það norður í Skagafjörð þar sem hann bjó og starfaði alla tíð síðan. Hann gerðist fyrst héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga 1974-84 en var jafnframt bóndi á Syðra-Skörðugili 1974-2000. Hann stundaði sauðfjárrækt, hrossarækt og loðdýrarækt.

Einar á Skörðugili lét mikið til sín taka í félagsstörfum fyrir bændur og var raunar frumkvöðull á því sviði. Meðal annars sat hann í stjórn Félags hrossabænda, sat í stjórn Sambands íslenskra loðdýraræktenda, var framkvæmdastjóri Hrossaræktarsambands Skagfirðinga, vann að stofnun Loðdýraræktarfélags Skagfirðinga og stofnandi og formaður Félags hrossabænda í Skagafirði. Einar var aðalhvatamaður að stofnun fóðurstöðvarinnar Melrakka hf. á Sauðárkróki, vann að stofnun Félags sauðfjárbænda í Skagafirði og sat í stjórn fyrstu sex árin. Einar var jafnframt aðalhvatamaður að stofnun Landssamtaka sauðfjárbænda og sat í stjórn félagsins fyrstu árin.

Útför Einars Eylerts Gíslasonar verður gerð frá Glaumbæjarkirkju í Skagafirði föstudaginn 13. september klukkan 14.

Líkar þetta

Fleiri fréttir