Opnar málverkasýningu á Bókasafni Akraness

Í dag, föstudaginn 6. september klukkan 16, mun Þórunn Bára Björnsdóttir listmálari opna málverkasýningu með yfirskriftinni Mosató, í Bókasafni Akraness. Þórunn Bára fæst við náttúruskynjun og samspil manns og umhverfis í verkum sínum og telur hún að list í samvinnu við náttúruvísindi geti aukið skilning á mikilvægi bættrar umgengni við náttúruna og það verði einnig fólki til góðs. Þórunn Bára vinnur verk sín með tilvísun til þróunar lífs í Surtsey og beinir sjónum að fléttum á hraunhellu, landnámi mosa í eldfjallajarðvegi, frumgróðri í fjöru og bólfestu plantna á hrjóstrugu undirlagi. Hún vekur þannig athygli á hinu smáa en mikilvæga í vistkerfi jarðar sem nú stendur mikil ógn af hlýnun jarðar.

Þórunn Bára lauk myndlistarnámi frá Edinborgar Collage of Art, BAhons, og Wesleyan háskóla í Bandaríkjunum, MALS. Sýningin Mosató stendur í þrjár vikur á opnunartíma safnsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir