Tækifæri dreifðra byggða rædd á málstofu um fjórðu iðnbyltingunni

Á morgun, fimmtudaginn 5. september klukkan 9, hefst málstofa um tækifæri dreifðra byggða í fjórðu iðnbyltingunni. Þetta verður engin venjuleg málstofa því hún er haldin samtímis með sömu dagskrá á sex stöðum á landinu og send út á netinu í leiðinni. Staðirnir sem um ræðir eru Borgarnes, Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri, Reyðarfjörður og Selfoss. Málstofan er skipulögð af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og landshlutasamtökum sveitarfélaga í samvinnu við Byggðastofnun. Í Borgarnesi verður málstofan haldin í húsnæði Símenntunarmiðstöðvarinnar við Bjarnarbraut 8.

Megininntak málþingsins eru þau tækifæri sem liggja í fjórðu iðnbyltingunni fyrir dreifðar byggðir. „Að hugsa til framtíðar gefur tækifæri á að takast á við breytingar, dagurinn í dag er nýtt upphaf. Þéttbýlisstaðir og borgir víðs vegar um heiminn eru upptekin af því að þróa það sem nefnt er snjallar lausnir, oftast í tengslum við stafræna þróun. Oft er um að ræða aukna sjálfvirkni og að innleiða nýjungar sem eru skilvirkari í tengslum við atvinnuþróun, menntun, heilbrigðismál eða annað. Tækifærin eru ekki síður við þróun dreifðra byggða. Hvernig getum við hagnýtt þessa þróun fyrir dreifðari byggðir,“ er meðal þess sem rætt verður. „Með fjórðu iðnbyltingunni skapast tækifæri fyrir dreifðar byggðir fyrir aukna þjónustu og ný störf en um leið njóta allra þeirra lífsgæða sem búseta í dreifðum byggðum hefur í för með sér.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráherra mun setja ráðstefnuna og á eftir henni fylgja fjögur lykilerindi. Ragnheiður Magnúsdóttir, formaður tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, David Wood, framtíðarfræðingur frá Bretlandi, Berglind Ragnarsdóttir frá Stafrænu Íslandi og Eva Pandóra Baldursdóttir munu öll segja frá því sem þau eru að vinna að.  „Gríðarleg tækifæri eru fyrir landshlutana og sveitarfélögin hvað varðar atvinnuþróun framtíðar.  Það verða til mörg störf sem ekki verða bundin tilteknum starfsstöðvum í framtíðinni. Sú þróun opnar fjölda tækifæra fyrir starfsfólk við að vinna sína vinnu óháð staðsetningu og gæti alveg sérstaklega opnað á hálaunastörf í dreifðari byggðum, svo sem á sviði hugbúnaðar, tækni eða á sviði þjónustu. Það er því mikilvægt að sveitarfélög búi þannig um að fólk geti nýtt þessa möguleika á snurðulausan hátt.“

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun ávarpa málþingið auk þess sem fulltrúar landshlutanna munu varpa mismunandi sýn á þau fjölmörgu tækifæri. Má þar nefna Arnar Sigurðsson frá Þingeyri sem mun segja frá verkefninu Stafrænir flakkarar en markmið verkefnisins er að fleiri fari að líta á það sem möguleika að búa og starfa á Þingeyri og að störf án staðsetningar, hvort sem er til skemmri eða lengri tíma, verði aðlaðandi og áhugaverður kostur fyrir komandi kynslóðir. Eva Björk Harðardóttir oddviti Skaftárhrepps mun fjalla um tækifæri sem felast í fjarlækningum fyrir dreifðari byggðir og Álfhildur Leifsdóttir kennari við Árskóla á Sauðárkróki mun fjalla um nýstárlega aðferðir og tækifæri í kennslu svo fátt eitt sé nefnt.

Málstofan hefst klukkan 9:00 í fyrramálið og stendur til klukkan 13:30.

Líkar þetta

Fleiri fréttir