Unnið var úr járni á staðnum og hér má m.a. sjá James Austin járnsmið og sérfræðing í axarsmíði vinna víkingaöxi. Ljósm. sm.

Járngerðarhátíð á Eiríksstöðum í Haukadal

Járngerðarhátíðin var haldin á Eiríksstöðum í Dölum um liðna helgi, frá 30. ágúst til 1. september. Eiríksstaðir ásamt Hurstwic buðu gestum að koma á hátíðina þar sem þeim gafst tækifæri til að kynnast lífi fólks á víkingaöld með því að sjá, snerta, prófa og gera hluti á þann hátt sem fólk gerði fyrir þúsund árum. Járn úr mýrarrauða var til dæmis búið til í fyrsta sinn í þúsund ár á hátíðinni. Auk þess má nefna glerperlugerð, vattarsaum og flatbrauðsbakstur en einnig fræðsla hjá Ásatrúarfélaginu. Hátíð þessi var nú haldin í fyrsta skipti og var sótt af handverksáhugafólki og sérfræðingum bæði frá Íslandi og útlöndum auk annarra gesta.

Ásamt tilraunastarfsemi með ofna til járngerðar var á staðnum hópur af sérfróðum aðilum sem kynntu handverk og matargerð ásamt því að kynna menningu víkinga. Undirbúningur að hátíðinni hefur staðið yfir um langt skeið og sumarið fór í að búa til kol úr viði úr Vaglaskógi, safnað var mýrarrauða til járngerðar og gerðar tilraunir með leir úr íslenskri jörð til ofnagerðar. Byggt var á fornleifafundum og vitneskju um Landnámstímann og eftirmynd aðferða þeirrar tíðar þannig endursköpuð. Að sögn forsvarsmanna og gesta á hátíðinni þótti hún takast vel til.

Steinunn Matthíasdóttir fréttaritari í Dölum leit við á hátíðinni og fangaði stemninguna. Myndasyrpa þaðan birtist í næsta Skessuhorni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir