Leikfélagið Sv1 í Menntaskóla Borgarfjarðar færði á síðasta ári upp leikritið um Línu Langsokk. Hér er hópurinn í lok frumsýningar ásamt forsetahjónin sem komu í heimsókn. Ljósm. úr safni/mm.

Skóli sem sinnir vel persónulegri þjónustu við nemendur

Skólastarf í Menntaskóla Borgarfjarðar hófst síðasta föstudag þegar nýnemar mættu í skólann til að fá stundatöflur sínar afhentar ásamt öðrum gögnum. Dagurinn hófst með sameiginlegum morgunverði nýnema og starfsfólks en eldri nemendur gátu nálgast sínar stundatöflur á vefnum. Kennsla hófst svo samkvæmt stundaskrá á mánudaginn. Um 120 nemendur verða við nám í skólanum á haustönn en nýnemar eru 43 talsins. 95% af heildarfjölda nemenda eru í staðnámi.

Væntingar til skólaársins

„Okkar helstu væntingar eru að halda áfram að efla þann góða skólabrag sem ríkir við þennan skóla. Við MB starfar þéttur og góður hópur og nemendum og starfsfólki líður vel í skólanum og vinnunni. Við erum fámennur skóli og sinnum persónulegri þjónustu við nemendur mjög vel og það á bæði við um nemendur í staðnámi og fjarnámi. Þá viljum við eiga gott samstarf við okkar nærsamfélag og samstarf við Hugheima, sem á marga góða bakhjarla í atvinnulífinu á Vesturlandi, er mikilvægur þáttur í því samhengi. Unnið er að hugmyndum varðandi samstarf og komu Hugheima í ákveðinni mynd inn í skólann. Þá höfum við tekið þátt í Evrópuverkefnum þar sem nemendur hafa fengið tækifæri á að heimsækja önnur lönd en rétt í þessu fengum við 30 þúsund evra styrk fyrir tveggja ára samstarfsverkefni ásamt Finnlandi, Tyrklandi, Póllandi og Rúmeníu. Það eru mikil tækifæri fólgin í því að fara í námsferðir erlendis, bjóða heim og kynnast fleiri heimshornum og málefnum,“ segir Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar.

Stefna á að flagga Grænfánanum

Einhverjar breytingar er á starfsliðinu í menntaskólanum fyrir komandi skólaár. Nýr kennari í upplýsingatækni tekur til starfa en annars er kennarahópurinn óbreyttur. Lilja S. Ólafsdóttir aðstoðarskólameistari er komin aftur til starfa úr námsleyfi. Þá hefur Guðrún Björg skólameistari MB sagt upp störfum og von er á nýjum skólameistara þegar líður á veturinn. Skólahúsnæði skólans en nokkuð nýlegt og þarfnast lítils viðhalds en stefnt er að því að bæta nemendarýmin og búa til svokallað kósý-rými fyrir nemendur.

Engin ein námsgrein er vinsælli en önnur í skólanum en flestir nemendur eru í íslensku og ensku auk þess sem útivistaráfangi sem skólinn fór af stað með í fyrra í vali hefur verið vinsæll. „Við erum að fara af stað með áfanga í umhverfisstjórnun í samvinnu við Landvernd en áfanginn er liður í undirbúningi til að flagga Grænfánanum. Útivistaráfangar og afþreyingarsálfræði eru áfangar sem byrjað var með í fyrra og nutu mikilla vinsælda og verða aftur í boði nú í haust,“ segir Guðrún Björg.

Spennt fyrir vetrinum

Við Menntaskóla Borgarfjarðar starfar þéttur hópi kennara og annars starfsfólk sem brennur í skinninu að efla skólann og þróa áfram, að sögn Guðrúnar Bjargar. „Það eru nokkrar hugmyndir í gangi og erum við þar að líta mikið til tæknivæðingar og að láta fjórðu iðnbyltinguna ekki framhjá okkur fara. Fyrirhugað samstarf við Hugheima er enn á teikniborðinu og við erum mjög spennt að taka á móti nýnemum sem og eldri nemendum og eiga gott og náið samstarf,“ segir skólameistarinn að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir