Fjölbrautaskóli Vesturlands. Ljósm. úr safni/ glh.

Mikilvægt að mæta hraðri þróun í tækni

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi var settur föstudaginn 16. ágúst og hófst kennsla samkvæmt stundaskrá síðastliðinn mánudag. Í upphafi haustannar eru nemendur skólans 488 talsins að sögn skólameistarans, Ágústu Elínar Ingþórsdóttur. Þar af eru 71 í námi með vinnu. Nýnemar sem koma beint úr grunnskóla eru 102 talsins. Mest aðsókn er á bóknámsbrautir eins og verið hefur og flestir þar sem innritast á náttúrufræðabraut. Rafvirkjanámið er vinsælast í iðnnáminu hjá dagskólanemendum og hefur Berlínaráfanginn í þýsku verið eftirsóttur. Aðrir valáfangar í haust, heimspeki og fíkn- og forvarnasálfræði, voru einnig vinsælir í vali nemenda.

Kennsluaðferðir og aukin vitund

Skólameistarinn segir miklar væntingar gerðar til nýs skólaárs. „Við viljum að FVA verði í forystu varðandi þróun í upplýsingatækni, árangursríkum kennsluháttum og gæðamálum ásamt því að efla skólabrag og skólamenningu FVA, skapa nemendum og starfsfólki góða vinnuaðstöðu og aðlaðandi umhverfi og stuðla að velferð þeirra í skólanum,“ segir Ágústa og bætir við: „Til að mæta hraðri þróun tækninnar verður að tryggja kennurum þjálfun, ráðgjöf og stuðning við að tileinka sér nýjungar í hugbúnaði og tölvutækni, meðal annars með námskeiðum, vinnustofum og þjónustuveri, auk rafræns námsstjórnunarkerfis fyrir nemendur og kennara þar sem allar upplýsingar eru aðgengilegar.“

Áhersla verður lögð á aukna vitund nemenda FVA um umhverfis- og jafnréttismál, ásamt verkefnum eins og lýðræði í skólastarfi, virku nýsköpunarstarfi og samstarfi í fjölþjóðlegum verkefnum. Hvorki fleiri né færri en þrjú erlend samstarfsverkefni eru að fara í gang við FVA, tvö Nordplus verkefni og eitt Erasmus verkefni. Nordplusverkefnið Education Lighthouse snýr að samanburði á menntunarkröfum og tækifærum nemenda í þremur löndum, Íslandi, Finnlandi og Litháen og verkefnið Nordic nature connection – Promoting health and wellbeing at school snýr bæði að heilsueflingu og náttúru eins og hún birtist í listum. Erasmusverkefnið Schools for a Green Future varðar umhverfismál.

Starfsmannavelta og framkvæmdir

Nokkrar breytingar hafa orðið innan starfsmannahópsins frá því á síðustu önn. Átta starfsmenn hafa látið af störfum, meðal annars vegna aldurs og tímabundinni ráðninga. Tíu nýir starfsmenn hefja störf á önninni, nokkrir þeirra eru ráðnir í afleysingar vegna forfalla eða námsleyfa. Eru þetta kennarar í tréiðngreinum, stærðfræði, íslensku, raungreinum, dönsku og á starfsbraut, ásamt umsjónarmanni húsnæðis og innkaupastjóra. Tveir kennarar koma aftur til starfa eftir leyfi og fjórir verða í leyfi á skólaárinu.

Í sumar hafa ýmsar framkvæmdir verið í gangi við skólann. Skipt hefur verið um glugga og klæðningar í rafiðnaðardeild og einnig er verið að setja upp hjólaskýli á tveimur stöðum við skólann. „Bætt aðstaða hjólreiðafólks tengist heilsustefnu skólans og hvetur nemendur og starfsfólk til að ferðast um á reiðhjólum,“ segir Ágústa.

Leiðandi afl í mótun náms

Akraneskaupstaður hefur lýst yfir vilja til að Akranes verði tilraunasveitarfélag í rekstri framhaldsskóla frá 2020, með það að markmiði að efla menntun, frístundastarf og forvarnir. Hafa fulltrúar Akraneskaupstaðar kynnt sínar hugmyndir fyrir starfsfólki FVA. Í þessu sambandi hefur skólameistari lagt áherslu á að um pólitíska ákvörðun væri að ræða. „Ef það yrði niðurstaða og ákvörðun stjórnvalda að Akranes verði tilraunasveitarfélag í rekstri framhaldsskóla þá er ég þess fullviss að starfsfólk skólans myndi mæta því verkefni af metnaði og heilindum,“ segir skólameistarinn. „FVA er öllum opinn og leggur áherslu á að þjóna íbúum á Vesturlandi og víðar. Hann hefur ákveðnar skyldur við sitt nærsamfélag og leitast við að bjóða íbúum þess eins fjölbreyttar leiðir til menntunar og mögulegt er. Námsframboðið er fjölbreytt sem mætir misjöfnum þörfum samfélagsins og ættu flestir að finna nám við sitt hæfi. Rekstur FVA hefur gengið það vel síðastliðin ár að skólinn á að geta verið leiðandi afl í mótun náms á nútímalegan hátt, þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu,“ segir Ágústa að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir