Mikil tilhlökkun fyrir skólaárinu í FSN

Kennsla hófst samkvæmt stundaskrá í Fjölbrautaskóla Snæfellinga síðastliðinn þriðjudag og segist Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari vera full tilhlökkunar til skólaársins. „Við erum spennt að byrja og höfum miklar væntingar til starfsins í vetur. Allar stöður í skólanum eru skipaðar af áhugasömu fólki,“ segir skólameistarinn í samtali við Skessuhorn. Nýnemadagur var síðasta föstudag þar sem nýnemar komu og fengu kynningu á helstu þáttum skólastarfsins. 200 nemendur eru skráðir í nám við Fjölbrautaskóla Snæfellinga á haustönn þetta árið. Þar af eru 150 staðnemar og af þeim eru 50 nýnemar sem eru að hefja nám að loknum grunnskóla. Um 50 nemendur eru í fjarnámi og í framhaldsdeild FSN á Patreksfirði eru um 20 nemendur sem koma í Grundarfjörð þrisvar á önn en er annars kennt frá Grundarfirði með fjarnámskennslusniði.

Nýjungar við skólann

„Við höfum fjárfest í nýjum gagnvirkum skjá sem við höldum að muni gera kennsluna fjölbreyttari og í takt við kennslufræði skólans. Þessi skjár er líka góð viðbót við kennslu fjarnema og nemenda okkar á Patreksfirði. Við keyptum tvær fjærverur á síðustu önn og þær eru mjög góð viðbót við þá kennsluhætti sem hér eru notaðir,“ útskýrir skólameistarinn. Örlitlar breytingar hafa orðið á starfsmannahópi fjölbrautaskólans. Tveir nýir starfsmenn bætast við mannskapinn og nokkrir eru ýmist að koma úr fæðingarorlofi eða eru á leiðinni í fæðingarorlof að sögn Hrafnhildar. „Við erum mjög spennt að byrja og hitta nemendur okkar eftir sumarfríið og við bindum vonir við að skólastarf í Fjölbrautaskóla Snæfellinga verði farsælt skólaárið 2019-2020,“ segir hún að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir