600 nemendur verða við nám í Háskólanum á Bifröst. Ljósm. Háskólinn á Bifröst.

Líta á hvern nemanda sem einstakling en ekki kennitölu

Um 600 nemendur verða í námi í vetur í Háskólanum á Bifröst en um 85% nemenda eru í fjarnámi. Háskólagátt er þegar hafin en skólasetning hennar var síðastliðinn föstudag. Skólasetning hjá grunn- og meistaranámi verður svo í dag, 22. ágúst. „Við eigum von á því að staðnemum fjölgi nokkuð vegna fleiri erlendra nemenda. Við væntum þess að skólastarfið gangi vel í vetur og að nemendur okkar nái þeim árangri sem þeir stefna að. Háskólinn á Bifröst er nemendadrifinn skóli og velferð og árangur nemendanna okkar er í fyrirrúmi. Við lítum á hvern nemanda sem einstakling en ekki kennitölu og starfslið skólans hefur sem markmið að laða fram það besta í hverjum og einum,“ segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst í samtali við Skessuhorn.

Viðskiptafræði í grunnáminu og forysta og stjórnun í meistaranáminu eru vinsælustu greinarnar enda ekki úr vegi þar sem skólinn er viðskiptaháskóli og viðskiptafræðinámið hefur löngum verið burðarnámið á Bifröst. „Í viðskiptafræði í grunnnámi er ný áherslulína á verkefnastjórnun, í forystu og stjórnun er þjónandi forysta ný áherslulína og við bjóðum nú upp á BA nám í opinberri stjórnsýslu. Í Háskólagáttinni voru ýmsar nýjungar eins og að taka námið með vinnu,“ bætir rektorinn við.

Ný kennslukerfi

Skólinn er líka að uppfæra nemendaskrárkerfið og kennslukerfið sem er mikið verkefni að sögn Vilhjálms. Uglan er nýtt sem nemendaskrárkerfi en hún er þróuð af Háskóla Íslands og nýtt í opinberu háskólunum. Canvass er nýja kennslukerfið á Bifröst en það er viðurkennt kerfi á alþjóðavísu og mjög öflugt.

Eins og hjá flestum menntastofnunum í upphafi skólaárs, þá eru einhverjar starfsmannabreytingar hjá háskólanum. „Heather McRobie er komin til liðs við félagsvísinda- og lagadeild, og nýjar í viðskiptadeild eru Þóra Þorgeirsdóttir og Arney Einarsdóttir en hún hefur störf um áramót. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir er komin aftur eftir ársleyfi. Lara Becker og María Ólafsdóttir eru að koma úr fæðingarorlofi. Meðal þeirra sem hafa hætt eru Páll Rafnar Þorsteinsson og Lilja Björg Ágústsdóttir,“ segir Vilhjálmur um starfslið við skólann.

Markvisst er verið að bæta aðstöðuna á Bifröst. Skipt hefur verið um glugga á heimavistarhúsinu og vinnuaðstaða þar bætt til muna. Endurnýjun á skólastofum er hafin og stöðugt er fjárfest í tækjum og tæknibúnaði.

Meistaranámið í sókn

Háskólinn á Bifröst er í sífelldri endurnýjun og leitast við að þjóna nemendum sínum sem allra best með margskonar nýjungum í námsframboði og kennsluháttum. „Meistaranámið við skólann hefur verið í sókn á undanförnum árum. Stefnumarkandi ákvörðun var tekin fyrir tveimur árum að sækja fram í alþjóðavæðingu skólans og bjóða upp á aukið námsframboð fyrir erlenda nemendur. Það er langtímaverkefni en eftir 5 – 10 á verður nám fyrir erlenda nemendur vonandi sjálfbær stoð í skólanum og undirstaða enn fjölbreyttara mannlífs á Bifröst,“ segir rektorinn að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir