Fimm af starfsmönnum Spalar sem tengdust göngunum alla tíð fengu afhent fyrstu eintökin af bókinni. Hér eru f.v. Marinó Tryggvason, Jónas H Aðalsteinsson lögfræðingur, Gylfi Þórðarson, Gísli Gíslason, Anna Kristjánsdóttir og höfundurinn og útgefandinn; Atli Rúnar Halldórsson.

Bókin Undir kelduna – saga Hvalfjarðarganga

Síðastliðinn fimmtudag var boðað til útgáfuhófs í Jónsbúð á Akranesi. Tilefnið var útgáfa bókarinnar Undir kelduna saga Hvalfjarðarganga 1987-2019. Það er bókaútgáfan Svarfdælasýsl sem gefur bókina út en höfundur er Atli Rúnar Halldórsson. Að bókaforlaginu standa sex systkin, Halldórsbörn frá Jarðbrú í Svarfaðardal. Þetta er önnur bók forlagsins, en sú fyrri kom út fyrir tveimur árum og ber sama nafn, Svarfdælasýsl og fjallar um bernskuslóðir þeirra systkinanna. Undir kelduna er 400 síður harðspjaldabók, ríkulega myndskreytt, og fjallar um afar merkilega framkvæmd sem um margt ruddi braut í íslenskri samgöngusögu.

Í bókinni er skrifað um þessa fyrstu einkaframkvæmd í íslensku samgöngusögunni. Á bókarkápu segir m.a. „Göngin eru jafnframt fyrstu neðansjávargöng veraldar í ungu gosbergi, fyrsta fjárfesting sinnar tegundar í Evrópu á vegum bandarísks tryggingafélags, fyrsta fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða í einkaframkvæmd og fyrsta verkefni á Íslandi þar sem verktakinn bar alla ábyrgð á fjármögnun verkefnisins og tæknilega ábyrgð á framkvæmdatímanum.“ Þarna er í heildstæðu riti fjallað um undirbúning að verkinu, framkvæmdir og rekstur Hvalfjarðarganga allt þar til ríkið fékk göngin að gjöf haustið 2018. Sumt af því efni sem bókin hefur að geyma hefur aldrei komist áður á prent. „Margt er hér skrifað sem hvergi hefur komið fram fyrr og meira að segja er þetta líka átaka- og spennusaga, bæði í upphafi og lok einkarekstrarins,“ sagði Atli Rúnar meðal annars þegar hann kynnti ritið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir