Fyrirhugað framkvæmdasvæði að Hurðarbaki, austan við núverandi eldishús. Ný hús á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði að Hurðarbaki, austan við núverandi eldishús Matfugls, er afmarkað með hvítum brotalínum. Byggingarreitir skv. deiliskipulagi eru afmarkaðir með gulum brotalínum. Teikning: Arkitekt og Ráðgjöf ehf.

Skipulagsstofnun leggur til takmarkaða stækkun kjúklingabús

Skipulagsstofnun kvað í liðinni viku upp úrskurð um frummatsskýrslu vegna stækkunar kjúklingabús Matfugls á Hurðarbaki í Hvalfjarðarsveit. Matfugl hyggst stækka búið í allt að 192 þúsund eldisrými, en þau eru 80 þúsund í dag. Stefnt er að byggja allt að fjögur, hundrað metra löng eldishús sem komi til viðbótar þeim tveimur húsum sem fyrir eru til eldis kjúklinga. Skipulagsstofnun hafði það verkefni að leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Þegar auglýst var eftir athugasemdum við frummatsskýrsluna sumarið 2018 bárust tvær skriflegar athugasemdir. Annars vegar frá Eyjólfi Jónssyni í Hlíð, nágranna við Hurðarbak, en hins vegar frá Veiðifélagi Laxár í Leirársveit. Hafa menn áhyggjur af að svona mikil stækkun búsins hafi í för með sér aukna lyktarmengun, en jafnframt hafa menn lýst áhyggjum sínum yfir að svo miklu magni áburðarefna úr skít frá fuglunum geti skolað niður í vatnasvið Laxár að slíkt gæti haft í för með sér slæmar afleiðingar fyrir lífríki árinnar.

Ólykt versta vandamálið

Skipulagsstofnun lagði mat á ýmsa þætti sem haft geta áhrif á umhverfið. Fjallað er um mengunarálag vegna næringarefna sem skolað gæti út frá skít sem dreift verður á nærliggjandi tún. Stofnunin telur að viðmið um dreifingu húsdýraáburðar í reglum um góða búskaparhætti verði haldin. Því taldi Skipulagsstofnun að mengunarálag vegna næringarefna verði óveruleg. Varðandi fráveitu frá búinu telur stofnunin ekki hættu á að hún muni hafa neikvæð áhrif á umhverfið, enda verða byggðir nýir settankar við eldishúsin. Skipulagsstofnun telur að veigamestu umhverfisáhrif af stækkun búsins verða vegna loftmengunar. Þrátt fyrir að reynt verði að halda húsunum þurrum þá verður starfsemin stöðug uppspretta ólyktar og muni þau áhrif aukast meira en sem nemur hlutfallslegri stækkun búsins. Hægt sé að stýra dreifingu skíts eftir aðstæðum hverju sinni, en öðru máli gegni um lykt frá kjúklingahúsunum. Ekki er gert ráð fyrir hreinsun á útblæstri frá húsunum en Matfugl tilgreindi í erindi sínu margvíslegar aðgerðir sem miða eiga að því að draga úr lykt, segir í skýrslu Skipulagsstofnunar, sem telur að óþefur frá eldishúsunum muni aukast með stækkuðu búi en að unnt verði að koma í veg fyrir veruleg óþægindi vegna lyktar frá dreifingu hænsnakíts. Af því leiðir að Skipulagsstofnun telur að áhrif stækkaðs kjúklingabús muni hafa talsverð neikvæð áhrif á loftgæði vegna ólyktar. Varðand mengun af völdum skítadreifingar segir orðrétt í niðurstöðu Skipulagsstofnunar: „Skipulagsstofnun telur að Matfugl hafi sýnt fram á að ekki séu miklar líkur á því að dreifing kjúklingaskíts muni hafa í för með sér verulega aukinn styrk köfnunarefnis í Laxá. Sú niðurstaða byggir á því að dreifing feli í sér hóflegt magn á hvern hektara eins og gert sé ráð fyrir í starfsleyfi og reglum um góða búskaparhætti.“

Takmörkuð stækkun

Í niðurstöðu segir: „Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.“ Þá telur stofnunin, eins og áður segir, að neikvæðustu áhrifin verði vegna ólyktar frá eldishúsunum. Fram kemur að talsverð óvissa ríki um hversu mikil óþægindi nágrannar Hurðarbaks munu upplifa í kjölfar stækkunar búsins. Skipulagsstofnun telur því óráð að ráðast í fulla stækkun búsins í einum áfanga. Því leggur stofnunin til að heimiluð verði stækkun sem bundin verður við smærri áfanga. Að því búnu verði búið rekið í nokkurn tíma og mat lagt á það hvort heimilt verði að ráðast í frekari stækkun eða hvort lagst verði gegn frekari stækkun þar sem loftmengun vegna ólyktar hafi aukist það mikið að frekar skuli takmarka starfsemina heldur en auka við hana.

Starfsleyfi í höndum Umhverfisstofnunar

Skipulagsstofnun víkur sér undan að leggja fram beinar tillögur um hversu stóra áfanga skuli heimila í stækkun búsins. „Eðlilegt er að Umhverfisstofnun taki ákvörðun við starfsleyfisútgáfu um stærð áfanga að teknu tilliti til hagkvæmra eininga framkvæmdaraðila,“ segir í lokaorðum Skipulagsstofnunar um frummatsskýrsluna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir