Óbyggðanefnd telur Snæfellsjökul vera þjóðlendu

Óbyggðanefnd kvað í síðustu viku upp úrskurði í þjóðlendumálum á Snæfellsnesi, nánar tiltekið í málum 1-4/2018. Niðurstöður nefndarinnar eru m.a. þær að Snæfellsjökull og landsvæði sunnan og austan hans séu þjóðlendur. Síðarnefnda svæðið, þ.e. landsvæði sunnan og austan Snæfellsjökuls, var jafnframt úrskurðað afréttur jarða í fyrrum Breiðuvíkurhreppi. Einnig var Eyrarbotn úrskurðaður þjóðlenda og jafnframt í afréttareign fimm tiltekinna jarða. Aftur á móti hafnaði óbyggðanefnd kröfum íslenska ríkisins um að tvö svæði væru þjóðlendur, þ.e. annars vegar landsvæði milli Hraunhafnardals, Mælifells og Bjarnarfossdals og hins vegar fjalllendið milli Elliða og Lágafells auk Baulárvalla.  Á meðfylgjandi yfirlitskorti um svæðið má sjá það svæði sem Óbyggðanefnd telur að tilheyra eigi íslenska ríkinu. Nákvæmari úrskurðarkort og úrskurðina í heild má finna á vefsíðu nefndarinnar.

Óbyggðanefnd var komið á fót árið 1998 í þeim tilgangi að rannsakað yrði hvaða svæði á landinu væru utan eignarlanda og þau yrðu úrskurðuð þjóðlendur. Einnig hefur nefndin það hlutverk að úrskurða um afmörkun afrétta innan þjóðlendna og önnur eignarréttindi í þjóðlendum.

Svæði 9B er tólfta svæðið af sautján sem óbyggðanefnd úrskurðar um. Með uppkvaðningu úrskurða þar hefur nefndin lokið umfjöllun um rúmlega 88% af flatarmáli landsins alls. Niðurstaðan er að 43,5% lands sem nefndin hefur lokið meðferð á teljast til þjóðlendna en 56,5% eru eignarlönd, að teknu tilliti til endanlegra niðurstaðna dómstóla. Af þeim hluta miðhálendisins sem nefndin hefur lokið meðferð á eru tæplega 86% þjóðlendur en rúmlega 14% eignarlönd. Heildarfjöldi skjala sem lögð hafa verið fram og rannsökuð við meðferð óbyggðanefndar á svæðum er 25.176.

Líkar þetta

Fleiri fréttir