Fjalla um möguleika dreifbýlis í þátttöku í fjórðu iðnbyltingunni

Fimmtudaginn 5. september næstkomandi verður haldin ráðstefna um fjórðu iðnbyltinguna samtímis á sex stöðum á landinu; í Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Reyðarfirði og Selfossi. Öllum erindum ráðstefnunnar verður streymt milli staða auk þess sem hægt verður að fylgjast með í gegnum netið fyrir þá sem sjá sér ekki fært að mæta. „Megininntak ráðstefnunnar eru þau tækifæri sem liggja í fjórðu iðnbyltingunni fyrir dreifðari byggðir,“ segir Karl Friðriksson, stjórnarformaður Framtíðarseturs Íslands og forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samtali við Skessuhorn. „Ýmsar breytingar eru að eiga sér stað í samfélaginu hvað varðar tækni og mikið hefur verið fjallað um þá nýju stöðu sem þessar tækniframfarir hafa í för með sér í þéttbýliskjörnum og borgum, en lítið hefur verið fjallað um áhrif tækniþróunar á dreifðari byggðir. Við viljum meina að með þessum breytingum og tækniframförum séu tækifæri fyrir einstök byggðarlög ef rétt verður á málum haldið.

Fjórða iðnbyltingin gæti í raun gert samkeppnisstöðu dreifðari byggða sterkari grípi þær þennan bolta á lofti. „Við sjáum fram á að það er að myndast ákveðin núningur í þéttbýliskjörnum. Fólk er að sækjast meira í að komast nær náttúrunni og fjölskylduvænna umhverfi. Dreifðari byggðir eru eftirsóknaverðari sem búsetukostur. Samfélagið er að þróast á þá leið að við getum unnið vinnuna okkar hvar sem er og þurfum því ekki lengur að velja búsetu út frá starfi og í því eru möguleikar fyrir landsbyggðina,“ segir Karl.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mun setja ráðstefnuna og á eftir henni fylgja fjögur lykilerindi. Ragnheiður Magnúsdóttir formaður tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, David Wood framtíðarfræðingur frá Bretlandi, Berglind Ragnarsdóttir frá Stafrænu Íslandi og Eva Pandóra Baldursdóttir munu öll segja frá því sem þau eru að vinna að áður en flutt verða erindi frá hverjum landshluta og mun Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi halda erindi fyrir Vesturland. „Ég hvet alla sem sjá sér fært að koma á ráðstefnuna að gera það og aðra að fylgjast með á netinu. Það er mikilvægt fyrir smærri samfélög að grípa þann bolta sem fylgir fjórðu iðnbyltingunni og nýti þau tækifæri sem í henni felast. Hálaunastörf gætu flust af höfuðborgarsvæðinu yfir til smærri sveitarfélaga sem og öll önnur störf, en þá þurfa sveitarfélögin að vera undir það búin. Það þarf að tryggja innviði í tækni og hugbúnaði til að möguleikinn sé til staðar fyrir fólk að vinna sína vinnu. Síðast en ekki síst opnar stafræn þróun fyrir að flytja opinbera þjónustu til dreifðari byggða og við hvetjum fólk til að huga að þessari þróun í tíma,“ segir Karl.

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna og skráning er að finna á vefslóð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, www.nmi.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir