Ráðist verður í breytingar á samþykktum og hluthafasamkomulagi MB

Sveitarstjórn Borgarbyggðar ræddi á fundi sínum í gær þá stöðu sem upp er komin í stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar og ítarlega var fjallað um í síðasta Skessuhorni. Ekki fór fram formlegur fundur í gær í hópi hluthafa Menntaskóla Borgarfjarðar, eins og sagt var í frétt Skessuhorns, heldur funduðu fulltrúa úr byggðarráði og níu stærstu hluthafar í MB sem ráða yfir ríflega 99% atkvæða í félaginu. Í kjölfar þess fundar fundaði sveitarstjórn og á fundi hennar lagði Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður byggðarráðs fram eftirfarandi bókun fulltrúa meirihlutans í sveitarstjórn:

„Fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar árétta vilja sinn til að standa kröftuglega við bakið á Menntaskóla Borgarfjarðar. Menntaskóli Borgarfjarðar er stofnun sem hefur verið flaggskip sveitarfélagsins og ávallt hefur ríkt sátt um starfssemi skólans. Meirihluti sveitarstjórnar vill einnig koma því á framfæri að skólastarfið muni ekki raskast þrátt fyrir þá stöðu sem skapast hefur í kring um verkaskiptingu stjórnar. Eðlilegt er að huga að ráðningarferli á nýjum skólameistara. Það er algjörlega skýrt í okkar huga að um Menntaskóla Borgarfjarðar þarf að ríkja eining og sátt. Öll aðkoma að skipun í stjórn og verkaskiptingu hefur miðað að því að stjórnin væri öflug, hefði þekkingu á málefnum skólans og að um hana gæti ríkt sátt. Sú sátt hefur hinsvegar ekki náðst og mikilvægt er að ekki séu pólitísk átök um stjórn skólans,“ segir í bókunni.

Fyrr í gær var haldinn óformlegur fundur með tíu stærstu hluthöfum í Menntaskóla Borgarfjarðar sem ásamt Borgarbyggð eiga yfir 99% hlutafjár í félaginu. Þar var ákveðið að leggja til að samþykktir Menntaskóla Borgarfjarðar yrðu yfirfarnar og láta útbúa hluthafasamkomulag.

Tilbúnir að stíga til hliðar

Síðar í bókun meirihlutans segir: „Það var samhugur á fundinum um að endurskoða samþykktir félagsins með það að markmiði að skerpa á því hvernig stjórn er skipuð m.a. til þess að koma í veg fyrir að pólitískur ágreiningur skapi ójafnvægi við stjórnun skólans. Einnig er mikilvægt að skoða með hvaða hætti fulltrúi annarra hluthafa er valinn og hver hans staða innan stjórnar eigi að vera. Farið verður í að vinna bæði drög á breytingum á samþykktum og að hluthafasamkomulagi og svo verður boðað til lögformlegs hluthafafundar þar sem skjölin verða lögð fyrir til umræðu og afgreiðslu. Nú verður boðað til fundar með stjórn skólans þar sem sú staða sem þar er uppi verður rædd og stefnt að því að finna lausn á málinu. Fulltrúar meirihluta Borgarbyggðar í stjórn MB hafa lýst því yfir að þau eru bæði tilbúin að stíga til hliðar, ef að það leysir þann ágreining sem uppi er núna,“ sagði í bókun meirihluta sveitarstjórnar Borgarbyggðar. Fulltrúar meirihlutans í stjórn MB eru Vilhjálmur Egilsson fráfarandi formaður stjórnar og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir