Járngerðarhátíð verður á Eiríksstöðum um mánaðamóti

Járngerðarhátíðin verður haldin á Eiríksstöðum í Dölum dagana 30. ágúst og 1. september næstkomandi. Eiríksstaðir ásamt Hurstwic bjóða gestum að koma á hátíðina þar sem þeim gefst tækifæri til að kynnast lífi fólks á víkingaöld með því að sjá, snerta, prófa og gera hluti á þann hátt sem fólk gerði fyrir þúsund árum. Á hátíðinni verða innlendir sem erlendir sérfræðingar sem þekkja vel til og hafa rannsakað járngerð og ætla að gera tilraunir til að endurgera ofnana sem notaðir voru, í því augnamiði að búa til járn, en búast má við sannkallaðri veislu í tilrauna-fornleifafræði að sögn skipuleggjenda. Ásamt tilraunastarfseminni þá verður á staðnum góð blanda af sérfróðum aðilum sem kynna handverk og matargerð sína ásamt því að kynna menningu víkinga. „Á Eiríksstöðum gengur gesturinn inn í framandi heim fortíðar og fær að taka þátt í að skapa, elda, smíða og læra allt um víkingana,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar.

Aðgangur að hátíðinni verður 1.200 krónur fyrir 12 ára og eldri en frítt verður fyrir yngri börnin. Aðganginum fylgir leiðsögn um langhúsið. Eins gildir miðinn sem einskonar gjaldmiðill sem hægt er að nota til að fá að taka þátt í því sem verður í boði á staðnum. Matur og drykkur verður í boði á staðnum og fyrirlestrar um sértæk umfjöllunarefni tengd járngerð og tilrauna-fornleifafræði verða í boði á föstudags- og laugardagskvöldinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.