Gerði upp bíl sem lokaverkefni í grunnskólanum

Tindur Ólafur Guðmundsson á Grund í Reykhólasveit útskrifaðist úr Reykhólaskóla síðastliðið vor ásamt bekkjarfélögum sínum. Hann er einn af þeim sem hneigist ekki til bóknáms en er hæfileikamaður á öðrum sviðum. Tindur hefur mikinn áhuga á bílum og tækjum, kann sitthvað fyrir sér í viðgerðum og er margfalt fróðari um hvers kyns ökutæki og vélar en flestallir sem eru eldri en hann. Hann fékk því í samráði við kennara að taka val í bílasmíði í 10. bekk. Gerði hann sér lítið fyrir og gerði upp Ford Ranger pallbíl, árgerð 2001. „Ég byrjaði að vinna í honum í fyrrasumar. Þá reif ég pallinn af bílnum og tók í gegn, sauð í götin og málaði svo pallinn með svona bedliner. Síðan gerði ég bílinn kláran fyrir sprautun, skar í brettin, gerði hann tilbúinn fyrir brettakanta og setti þá síðan upp,“ segir Tindur, sem nýtti tækifærið og setti stærri dekk undir bílinn en voru fyrir. „Bíllinn var í svona sæmilegu ástandi þegar ég fékk hann, en frekar ryðgaður. Aðal verkið var að koma stærri dekkjum undir hann,“ segir Tindur.

Sjá nánar spjall við Tind Ólaf í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir