Grímarsstaðavegur. Ljósm. úr safni frá vorinu 2017.

Ráðist í gerð nýs vegar frá Hvanneyri að Hvítárbrú

Fyrr í sumar voru hjá Vegagerðinni opnuð tilboð í endurgerð Grímarsstaðavegar í Andakíl í Borgarfirði, en hann liggur frá Hvanneyrarvegamótum og að gömlu Hvítárbrúnni. Vegur þessi var þjóðleið milli landshluta allt þar til Borgarfjarðarbrú var vígð haustið 1981. Eftir það, og reyndar nokkru áður einnig, var hann án viðhalds. Í frétt Skessuhorns frá apríl 2017 kom m.a. fram að vegur þessi væri með þeim lélegri sem um getur, og sé þó samanburð víða að finna. Rifjað var upp hvenær vegurinn fékk síðast ærlegt viðhald með ofaníburði og endurbyggingu af einhverju tagi. Elstu menn rak ekki minni til að vegurinn hafi fengið viðhald með ofaníburði og lagfæringum síðan 1969, eða í hálfa öld.

Alls verður lagður nýr 5,8 kílómetra uppbyggður vegur með bundnu slitlagi. Verkinu skal að fullu lokið 1. ágúst á næsta ári. Þrjú fyrirtæki buðu í verkið og reyndust tvö tilboðanna undir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar sem hljóðar upp á 103 milljónir króna. Lægsta boð átti Borgarverk ehf. 95,1 milljón króna sem er 92,3% af kostnaðaráætlun. Þróttur ehf. á Akranesi bauð 99,3 milljónir króna og Mjölnir á Selfossi 131 milljón.

Líkar þetta

Fleiri fréttir