Héraðið var forsýnt í Árbliki og á Hvammstanga í gær

Héraðið, ný íslensk kvikmynd eftir leikstjórann Grím Hákonarson, verður frumsýnd í bíóhúsum landsins á miðvikudaginn. Eins og kunnugt er var myndin að stórum hluta tekin upp á Erpsstöðum í Dölum, en auk þess á Hvammstanga og Blönduósi. Héraðið fjallar um samskipti Ingu, miðaldra kúabónda, við kaupfélagið og kerfið. Hún reynir að fá aðra bændur í lið með sér í baráttu sinni en það gengur erfiðlega þar sem kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni. Myndin var forsýnd fyrir þátttakendur og aðstoðarfólk í Árbliki í Dölum í gær, en auk þess á Hvammstanga. Vildi Grímur þannig sýna samfélögunum sem fóstruðu upptökurnar virðingarvott og þakklæti. Samkvæmt heimildum Skessuhorns vakti myndin mikla lukku meðal gesta á forsýningum. Myndin verður tekin til sýningar í íslenskum kvikmyndahúsum á miðvikudag og fer í kvikmyndahús víðs vegar um Evrópu í haust.

Það er Arndís Hrönn Egilsdóttir sem fer með hlutverk Ingu í myndinni og skrifaði Grímur handritið með hana í huga. Arndís Hrönn hefur meðal annars leikið í sjónvarpsþáttunum Pressu og Föngum og í kvikmyndinni Þröstum en hún var tilnefnd til Edduverðlaunanna fyrir hlutverkið í þeirri síðastnefndu. Með önnur burðarhlutverk í myndinni fara þau Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sigurður Sigurjónsson, Hinrik Ólafsson, Hannes Óli Ágústsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir