Tekist á um stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar

Djúpstæður ágreiningur er kominn upp innan sveitarstjórnar Borgarbyggðar og stjórnar Menntaskóla Borgarfjarðar um málefni skólans. Síðdegis í gær var boðað til aukafundar í sveitarstjórn sökum málsins að kröfu Framsóknarflokksins sem skipar minnihlutann í sveitarstjórn. Framsóknarmenn lögðu fram bókun þar sem íhlutun sveitarstjórnar í málefni skólans er fordæmd. Þeirri ályktun svarar meirihluti sveitarstjórnar með ítarlegri bókun, sjá hér að neðan. Tekist er á um stjórnarformennsku í stjórn menntaskólans. Hrefna B. Jónsdóttir var á fyrsta fundi nýrrar stjórnar kosin formaður með atkvæðum Framsóknarmanna og fulltrúa atvinnulífsins sem hefur oddaatkvæði í stjórn skólans og þar með missti Vilhjálmur Egilsson sæti stjórnarformanns. Að öðru leiti vísast í neðangreindar bókanir:

 

Ályktun Framsóknarflokksins:

„Fulltrúar Framsóknarflokksins í sveitarstjórn hvetja meirihluta sveitarstjórnar til að endurskoða forgangsröðun sína varðandi íhlutun á málefnum Menntaskóla Borgarfjarðar. Þá krefjumst við þess að meirihluti sveitarstjórnar láti tafarlaust af fordæmalausum pólitískum afskiptum af störfum stjórnar skólans. Mikilvægt er að stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar fái vinnufrið til að sinna skildum sínum sem felast fyrst og fremst í því að efla skólann og starfsemi hans enn frekar til framtíðar. Fulltrúar Framsóknarflokksins telja að stjórn skólans sé vel treystandi til að sinna verkefnum sínum stofnuninni til heilla eins og kveðið er á um í samþykktum skólans.“

 

Bókun meirihlutans:

„Meirihluti sveitarstjórnar Borgarbyggðar hefur mikinn áhuga á að standa kröftuglega við bakið á Menntaskóla Borgarfjarðar sem er ákaflega dýrmæt stofnun fyrir sveitarfélagið. Til þess að skólinn geti haldið áfram að sækja fram þá er mikilvægt að leita allra leiða til að ná sáttum um stjórn skólans og munum við leggja okkur fram til að svo geti orðið
Því miður náðist ekki samstaða um kjör formanns stjórnar innan stjórnar Menntaskóla Borgarfjarðar og ekki sátt um kjörið hjá meirihluta sveitarstjórnar Borgarbyggðar sem ber ábyrgð á skólanum þar sem hann er í meirihlutaeigu sveitarfélagsins. Þeir fulltrúar sem meirihlutinn skipaði í stjórn í MB eru Vilhjálmur Egilsson og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir. Var Vilhjálmur tilnefndur sem formannsefni enda hafði hann gengt því hlutverki frá aðalfundi á árinu 2016 að ósk meirihluta sveitarstjórnar og var tilbúinn til að leiða starfið áfram. Um þessa tilnefningu hafði ríkt sátt. Fyrir fyrsta stjórnarfund í MB hafði fulltrúi annarra hluthafa en Borgarbyggðar, Sigursteinn Sigurðsson lýst sig hlynntan þessari tilhögun og hafði ennfremur lýst yfir ánægju með störf Vilhjálms. Fulltrúar minnihlutans í stjórninni voru tilnefnd Helgi Haukur Hauksson og Hrefna Bryndís Jónsdóttir. Þegar kom að því að stjórnin skipti með sér verkum höfðu fulltrúar minnihlutans í stjórn MB talið fulltrúa annarra hluthafa á að kjósa Hrefnu B. Jónsdóttur sem kom öðrum stjórnarmönnum að óvörum. Það var og gert án samtals eða samráðs við meirihluta sveitarstjórnar eða þá hluthafa sem hann er fulltrúi fyrir. Það má því vera ljóst að ný stjórn skólans hóf störf í ágreiningi bæði innan stjórnar, við meirihluta sveitarstjórnar og aðila úr hópi annarra hluthafa.
Nú er framundan ráðning á nýjum skólameistara og á dögunum sendi formaður byggðaráðs tölvupóst á stjórn skólans. Þar var óskað eftir að ekki yrði hafið þá þegar ráðningarferli á nýjum skólameistara þar sem þessi ágreiningur væri enn uppi og uppsögn skólameistara hafði borið brátt að. Því var talið eðlilegt að fara varlega í sakirnar og ígrunda stöðuna. Í því skyni var vilji til þess að kalla saman fund með hluthöfum og síðar með stjórn til að fara yfir málin. Þá höfðu fulltrúar minnihluta sveitarstjórnar í stjórn MB óskað eftir því að nýjum formanni yrði veitt umboð til ráða skólameistara og var boðað til stjórnarfundar 23. júlí með skömmum fyrirvara í þeim tilgangi. Ekki var sátt um að nýr formaður stjórnar skyldi sjá alfarið um ráðningarferlið. Fulltrúar meirihluta sveitastjórnar lögðu til á fundinum að ráðningastofa yrði fengin til verksins. Ákvörðun var ekki tekin um á fundinum hvor leiðin yrði farin. Það hlýtur að teljast mikilvægt að sem mest sátt ríki innan stjórnar sem og hluthafahópsins áður en nýr skólameistari verður ráðinn. Meirihluti sveitarstjórnar setur sig ekki upp á móti því að ráðningaferli verði hafið sem fyrst svo fremi sem það sé framkvæmt með faglegum og gegnsæjum hætti.
Nú hefur verið boðað til óformlegs fundar þar sem stærstu hluthafar munu ræða ofangreind mál og stöðu stjórnarinnar. Í því ljósi verður það rætt hvort þörf sé að að gera hluthafasamkomulag um stjórn skólans þar sem skerpt verði á því hvernig formaður er valinn. Burt séð frá því hverjir eru í meirihluta sveitastjórnar hverju sinni þá hlýtur að teljast eðlilegt að formaður stjórnarinnar hafi þeirra stuðning. Eins hlýtur það að teljast óæskilegt að fulltrúi annarra hlutahafa sem halda samtals á um 8% hlut geti lent í því að verða í raun oddamanneskja í stjórn félagsins og að meirihluti og minnihluti þurfi að semja við hann um þau mál sem þeir vilja að fái framgang. Hitt er svo annað mál að á einhverjum tíma gæti verið vilji til að semja um að fulltrúar minnihlutans fari með stjórn skólans en þá er eðlilegt að óskað sé eftir samtali um það en ekki setið á launráðum til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Þannig sé grafið undan trúverðugleika þeirra sem vilja með framlagi sínu allt til þess vinna að skólinn eflist og blómstri.
Menntaskóli Borgarfjarðar er mikilvægur hornsteinn í héraði og því brýnt að um hann ríki sem mest sátt og samstaða.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir