Grunnskóli Borgarness eins og hann lítur út í dag en langt er komið á veg með framkvæmdir. Ljósm. glh.

Framkvæmdum við fyrri áfanga lýkur í ágúst

Framkvæmdir við Grunnskólann í Borgarnesi eru nú komnar langt á veg og áætlað er að afhenda fyrri hluta hluta framkvæmdanna í næsta mánuði. Fyrirtæki Eiríks J. Ingólfssonar húsasmíðameistara, EJI ehf., hefur séð um verkið síðasta árið og hefur gengið vel og allt samkvæmt áætlun að sögn Kristófers Ólafssonar, verkstjóra framkvæmdanna. „Það hefur gengið vonum framar hjá okkur og við erum á fullu að leggja lokahönd á þennan fyrri áfanga,“ segir Kristófer ánægður en fer þó varlega í að áætla sérstaka dagsetningu. „Það eina sem hefur tafið okkur er í rauninni að við erum að bíða eftir efni og slíku. Þrátt fyrir það þá hefur gengið vel og öll starfsemi verður komin á fullt í þessum nýja og uppfærða hluta skólans í ágúst,“ bætir hann við.

Í fyrri áfanga var gert ráð fyrir viðbyggingu sem inniheldur sal skólans og eldhús ásamt björtu kennslurými fyrir yngsta stig skólans á annarri hæð. Allar list- og verkgreinastofur skólans verða endurgerðar á fyrstu hæð, en þar verða stofur fyrir heimilisfræðikennslu, smíðakennslu, textíl- og myndmenntakennslu. Verður öll aðstaða til kennslu fyrir nemendur og starfsfólk til fyrirmyndar.  Stefnt verður að því að efna til nafnasamkeppni á sal skólans meðan nemenda og kennara þegar skólinn hefst í haust. Þegar skólastarf er komið vel á veg verður íbúum Borgarbyggðar einnig boðið að koma í heimsókn og skoða nýju viðbygginguna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir