Katrín Guðjónsdóttir og Marius Ciprian Marinescu opna kaffihúsið Skagakaffi á Akranesi á morgun. Ljósm. aðsend.

Skagakaffi verður opnað á morgun

Þau Katrín Guðjónsdóttir og Marius Ciprian Marinescu hafa fest kaup á Kaffihúsinu Lesbókinni á Akranesi og munu á morgun, fimmtudaginn 1. ágúst, opna þar nýtt kaffihús undir nafninu Skagakaffi. Katrín hefur lengst af unnið hjá Símanum en núna síðast vann hún á innkaupasviði hjá Landspítalanum. Marius er línukokkur og hefur unnið víða en kom til Íslands til vinna fyrir tveimur árum. „Við búum eins og er í Reykjavík en okkur langar að flytja á Akranes. Ég er sjálf frá Ísafirði en Marius frá Rúmeníu, svo það verður breyting fyrir hann að flytja svona í smábæ,“ segir Katrín kímin þegar blaðamaður Skessuhorns heyrði í henni.

Hjá Skagakaffi verður hægt að fá alla hefðbundna kaffidrykki og kökur auk þess sem boðið verður upp á smá a la carte matseðil. „Við munum bjóða upp á nokkrar tegundir af kökum hverju sinni og á matseðlinum verðum við með léttan mat, taco, salat og eitthvaði í þeim dúr,“ segir Katrín.

En hvernig vildi það til að þau ákváðu að fara í kaffihúsarekstur á Akranesi? „Við fórum í smá bílferð upp á Skaga. Marius hafði aldrei farið þangað og varð yfir sig hrifinn. Daginn eftir sáum Lesbókina auglýsta til sölu. Við öfluðum meiri upplýsinga og eftir það ákváðum við bara að slá til,“ svarar Katrín. „Við sáum tækifæri í þessu fyrir okkur að gera eitthvað saman. Marius mun sjá um matinn og mitt hluverk er að sjá til þess að viðskiptavinir okkar fái sitt. Þetta er alveg nýtt fyrir mér en mig hlakkar til að taka á móti fólki og veita góða þjónustu,“ segir Katrín. Af tilefni opnunarinnar verður tilboð fram á laugardag þar sem 20% afsláttur verður af þremur tacoum á matseðli. „Við viljum þakka öllum sem hafa aðstoðað okkur, sérstaklega foreldrum mínum og eigendum og yfirkokki á Bastard veitingahúsi,“ segir Katrín að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir