Tröllastóll í Fossatúni

Ferðaþjónustubændurnir Steinar Berg Ísleifsson og Ingibjörg Pálsdóttir í Fossatúni í Borgarfirði hafa á undanförnum árum þróað gönguleiðir á jörð sinni. Það hafa þau gert án opinberra styrkja og verkefnið því fjármagnað með því sem ferðaþjónustan skilar.

„Tröllaganga og Þjóðsöguganga nefnast gönguleiðirnar hjá okkur. Á þessu ári höfum við svo bætt við heilmiklu, þar á meðal tröllaleikjum. Í þessari viku vígðum við svo tröllastól sem býður upp á myndatökur yfir Tröllafossa. Hann virkaði eins og segull strax á fyrsta degi,“ segir Steinar í samtali við Skessuhorn. Á meðfylgjandi mynd sjást þau hjón máta stólinn, en hann smíðaði Davíð Magnússon trésmiðjur hjá Eiríki J Ingólfssyni ehf. í Borgarnesi.

Steinar Berg lætur vel af ferðasumrinu sem nú er í hámarki. „Sumarið hefur verið afbragðsgott hjá okkur bæði í gistingu og veitingasölu. Við höfum gistipláss fyrir um 80 gesti í smáhýsum og rúmgóðum gistihúsum á bökkum Grímsár. Nýting smáhýsanna, eða poddanna eins og þeir eru kallaðir, hefur verið ævintýralega góð í sumar, alveg um 100%. Poddarnir eru 17 talsins núna og líklegt að við munum fara í að fjölga þeim. Á hverjum degi þarf mikill fjöldi ferðafólks frá að hverfa þar sem fullbókað er í smáhýsin,“ sagði Steinar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir