Allt að 27 vindmyllur gætu risið í landi Sólheima

Eins og áður hefur verið greint frá í Skessuhorni hefur fyrirtækið Quadracan Iceland Development ehf. hefur hug á að reisa vindorkugarð í landi Sólheima í Laxárdal. Tillaga að matsáætlun fyrir umhverfismat vegna þessara áforma er nú til kynningar. RÚV greinir frá.

Fyrirhugað er að reistar verði allt að 27 vindmyllur sem gætu þá skilað allt að 115 megawöttum á 3.200 hektara svæði á Laxárdalsheiði, í landi Sólheima. Frá staðnum eru um tíu kílómetrar til Borðeyrar en um 23 km í Búðardal. Áætlað er að skipta framkvæmdum upp í tvo áfanga. Fyrst verði reistar 20 vindmyllur með 85 MW hámarksafköstum og síðan sjö vindmyllur til viðbótar sem geti skilað allt að 30 MW samtals.

Turnar vindmyllanna verða á bilinu 91,5 til 105 metrar á hæð og þvermál spaðanna frá 117 og upp í 136 metra. Ætlunin er að nota vindmyllur sem gerðar eru fyrir kalt lofstlag, með ísvörn og íseyðingu auk sjálfvirkrar stjórnunar á snúningshraða sem tekur mið af hita og raka, svo síður safnist ís á spaðana sem kastast síðan af þeim.

Í tillögu að matsáætluninni kemur fram að þetta svæði henti vel til virkjunar vindorku vegna stöðugra sterka vindstrengja á afskekktu svæði langt frá byggð. Aðgengi að núverandi vegakerfi telst gott auk þess sem stutt er í tengingu við raforkukerfið. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa átt samtal við skipulagsyfirvöld í Dalabyggð um breytingar vegna þessa á aðalskipulagi, en auk þess kallar verkefnið á deiliskipulag framkvæmdasvæðisins.

Matsáætlunina má lesa í heild sinni á vef Mannvits. Öllum er frjálst að skila ábendingum eða gera athugasemdir við áætlunina til 1. ágúst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir