Biðröð eftir ís hjá Svövu Pétursdóttir í Ískofanum í veðurblíðunni í Stykkishólmi. Ljósm. sá.

Búið að opna Ískofann í Stykkishólmi

Nýir eigendur teknir við rekstrinum

 

Ískofinn í Stykkishólmi var opnaður á nýjan leik laugardaginn 13. júlí síðastliðinn. Svava Pétursdóttir keypti rekstur vagnsins ásamt Elvari Má Eggertssyni, eiginmanni sínum. Hún segir kaupin hafa borið brátt að. „Þetta var skyndihugdetta,“ segir Svava létt í bragði í samtali við Skessuhorn á mánudaginn. „Kofinn er búinn að vera á sölu síðan í vetur og hafði enginn rekstur verið í sumar. Við hugsuðum með okkur; „af hverju ekki að prófa?“ og ákváðum að slá til. Við opnuðum á laugardaginn fyrir viku, aðeins þremur dögum eftir að við tókum við rekstrinum,“ segir hún. „Það hefur gengið svona líka glimrandi vel og við fengið mjög góðar viðtökur þessa rúmu viku sem við höfum verið með opið,“ segir Svava.

„Það kom okkur raunar á óvart hversu vel var tekið í þetta og hve vel hefur gengið fyrstu vikuna. Tjaldsvæðið í Stykkishólmi var fullt um helgina, bærinn er ennþá alveg stappfullur af fólki og bæði aðkomufólk og heimamenn hafa verið duglegir að láta sjá sig.Við erum búin að vera alveg á haus í góða veðrinu undanfarið og líst rosalega vel á þetta allt saman,“ segir hún ánægð. „Við stöndum vaktina saman, ég og maðurinn minn, á meðan við erum að komast inn í þetta. Við eigum stóra fjölskyldu líka, fimm börn og það er nóg að gera. Ískofinn verður svona fjölskyldurekstur, það er hugsunin hjá okkur,“ segir Svava.

Í Ískofanum er hægt að fá belgískar vöfflur, ís og kaffi; espresso, americano, latte og cappuccino. Kofinn er opinn alla daga vikunnar, milli 14:00 og 21:00 á virkum dögum en frá 13:00 til 21:00 um helgar. „En ef veðrið er gott eins og til dæmis í gærkvöldi þá teygjum við úr opnunartímanum. Þá vorum við með opið til 22:00 og það var stöðugt rennsli allt kvöldið,“ segir Svava Pétursdóttir að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir