Stefán Jónsson á Grími AK. Ljósm. úr safni/ kgk.

Gott hljóð í strandveiðimönnum

Fleiri bátar hafa stundað strandveiðar í sumar miðað við í fyrra. Í þarsíðustu viku voru 607 bátar komnir með strandveiðileyfi, en voru 536 sama dag 2018. Hærra fiskverð og lægri veiðigjöld á sinn þátt í því að fleiri halda til strandveiða þetta árið, eftir fækkun undanfarinna ára.

Skagamaðurinn Stefán Jónsson á Grími AK-1 aflaði mest allra á síðustu strandveiðivertíð, en hann gerði þá og gerir enn út frá Arnarstapa. Hann segir aðstæður allt aðrar og betri til veiða í sumar. Bæði hafi fiskverð verið hærra og veðrið betra en það var í fyrrasumar.

„Það munar miklu að fá þetta um hundrað krónum meira fyrir kílóið. Verðið í fyrra var ekki boðlegt fyrir okkur sjómenn. Í sumar hefur það hins vegar verið um 350 krónur,“ sagði Stefán þegar blaðamaður hitti hann á þvottaplaninu við Olís á Akranesi síðastliðið fimmtudagskvöld. Þá var hann nýkominn í helgarfrí frá Stapanum.

Í heildina voru strandveiðibátarnir búnir að landa sex þúsund tonnum um miðja síðustu viku, eða 740 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Engu að síður er aflinn á hvern bát að meðaltali minni en hann var í fyrrasumar, eða 10,2 tonn, sem er hundrað kílóum minni afli að meðaltali.

Reglur um strandveiðar segja til um að þær megi hver bátur stunda samtals 12 daga innan hvers mánaðar frá maí til og með ágúst, alls 48 daga. Einungis er leyfilegt að veiða á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, þegar ekki er um rauða frídaga að ræða á almanakinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir